Innlent

62 prósent hefðu viljað skikka fólk á sóttvarnahótel

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Komufarþegar til landsins eiga þess nú kost að fara á sóttvarnarhótel endurgjaldslaust.
Komufarþegar til landsins eiga þess nú kost að fara á sóttvarnarhótel endurgjaldslaust. Vísir/Egill

Um 34 prósent landsmanna eru sátt við nýjustu reglugerð heilbrigðisráðherra um aðgerðir á landamærum sem fela í sér að komufarþegar til Íslands sem eiga að fara í sóttkví geti verið í heimahúsi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.

Ríflega 62 prósent hefðu hins vegar kosið að komufarþegum til Íslands frá skilgreindum hááhættusvæðum yrði gert að vera í sóttkví undir eftirliti á sóttvarnahóteli, og gerð hefði verið breyting á sóttvarnalögum sem heimilaði slíka kvöð. Loks hefðu tæplega fjögur prósent kosið að komufarþegar til Íslands sem ættu að fara í sóttkví hefðu fengið að ráða hvar þeir væru í sóttkví án þess að reglur um heimasóttkví væru hertar.

Hátt í níu af hverjum tíu tóku afstöðu til þess hver fullyrðinganna lýsti best þeirra skoðun. Um fimm prósent sögðu enga þeirra lýsa sinni skoðun og tæplega 6% til viðbótar tóku ekki afstöðu.

Með nýjum reglum á landamærum sem tóku gildi 1. apríl síðastliðinn var farþegum sem komu til landsins frá skilgreindum hááhættusvæðum gert að dvelja í sóttkví undir eftirliti á sóttvarnahóteli. Eftir kærur frá farþegum kvað héraðsdómur hins vegar upp þann úrskurð að ekki væri lagaheimild fyrir reglunum. Eftir að Landsréttur hafði vísað frá kæru sóttvarnarlæknis á úrskurði Héraðsdóms tók ný reglugerð heilbrigðisráðherra gildi þann 9. apríl, en hún fól í sér að komufarþegar sem ættu að fara í sóttkví gætu verið í heimahúsi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Spurt var, hvaða skoðun hafa landsmenn?

Ég er sátt(ur) við nýja reglugerð heilbrigðisráðherra sem felur í sér að komufarþegar til Íslands sem eiga að fara í sóttkví geti verið í sóttkví í heimahúsi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum

Ég hefði kosið að komufarþegum til Íslands frá skilgreindum hááhættusvæðum yrði gert að vera í sóttkví undir eftirliti á sóttvarnahóteli, og gerð hefði verið breyting á sóttvarnalögum sem heimilaði slíka kvöð

Ég hefði kosið að komufarþegar til Íslands sem ættu að fara í sóttkví hefðu fengið að ráða hvar þeir væru í sóttkví án þess að reglur um heimasóttkví væru hertar

Ekki er marktækur munur á svörum fólks eftir kyni, aldri, búsetu, menntun eða tekjum en töluverður munur eftir því hvaða flokk það kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag. Þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn skera sig nokkuð úr. Tæplega 46% þeirra vilja að komufarþegum frá hááhættusvæðum yrði gert að vera í sóttkví á sóttvarnarhóteli og lögum breytt til að heimila það, á meðan um 61-73% þeirra sem kysu aðra flokka vilja það.

Eins eru nær 49% Sjálfstæðismanna sátt við reglugerð sem heimilar komufarþegum að vera í sóttkví í heimahúsi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum á meðan þeir sem kysu aðra flokka eru ólíklegri til að vera sáttir við hana. Tæplega 16% þeirra sem kysu Pírata eru sátt við reglugerðina og 24% þeirra sem kysu Framsóknarflokkinn, en um 30-38% þeirra sem kysu aðra flokka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×