Lífið

Mikilvægt að vita hvers vegna við erum að greina börn

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Anna Greta Ólafsdóttir skólastjóri er sjálf með ADHD og á barn með ADHD og lesblindu.
Anna Greta Ólafsdóttir skólastjóri er sjálf með ADHD og á barn með ADHD og lesblindu. Mission framleiðsla

„Ég held stundum að við gleymum því að það stendur í námsskránni að við séum uppeldis- og menntastofnun. Stundum finnst mér betra að tala um skólana sem velferðarstofnun,“ segir Anna Greta Ólafsdóttir skólastjóri í Varmárskóla um hlutverk skólanna.

Anna Greta ræddi málefni barna í þættinum Spjallið með Góðvild sem birtist á Vísi og helstu efnisveitum í dag.

„Greiningar eru að mörgu leyti góðar, en kannski bara ekkert að öllu leyti alltaf góðar,“ sagði Anna Greta þegar talið berst að greiningum barna.

„Ég held að við verðum að vita, af hverju vantar okkur greiningu?“

Anna Greta er sjálf með ADHD greiningu. Hún segir mikilvægt að vita hvers vegna við erum að greina börnin. Oft fari of mikill tími í greiningu frekar en að vinna með hana, kannski ætti að greina færri og sinna þeim betur.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Spjallið með Góðvild - Anna Gréta Ólafsdóttir

Greiningin ekki alltaf nauðsynleg

Hún bendir á að greiningar séu dýrar og kannski viljum við því frekar eyða peningunum í annað. Að það sé kannski hægt að sleppa einhverjum greiningum sem skipta kannski ekki öllu máli fyrir aðstoðina sem barnið fær í skóla.

„Það eru allt of mög dæmi um að foreldrar fari á einkastofur sem kostar bara mjög mikið til að fá greiningu sem þau halda að þau þurfi að fá vegna þess að þá fær barnið meiri aðstoð í skólanum. Svo koma þau á fund í skólanum og þá hefði alveg kannski verið hægt að veita aðstoð hvort sem að þú værir búinn að eyða áttatíu til hundrað þúsund í að láta skoða eitthvað.“ Þetta á til dæmis við með einhverfugreiningu, en auðvitað eru sumar greiningar sem þarf að gera svo barnið geti fengið lyf.

Í þættinum er farið um víðan völl þegar það kemur að kennslu barna og skóla án aðgreiningar. Anna Greta segir að við séum stundum á villigötum þegar við erum að segja að kennarar séu ekki sérfræðingar í einhverfu, hegðunarmálum eða ADHD og þessu öllu en kennarar séu einmitt sérfræðingar í þessu öllu.

„Ég hef alltaf haft rosalega mikla trú á kennurum og náttúrulega hef kynnst mörgum kennurum og þvílíkt sem að þetta fólk er fært í sínu fagi. Ég hef alltaf hugsað kennara svolítið eins og heimilislækna, kennarar eru flinkir í öllu.“

ADHD hafði áhrif á líftrygginguna

Anna Greta hafði vitað lengi að hún væri með ADHD en fór ekki í greiningu fyrr en á fullorðins árum þegar hún vildi prófa að fara á lyf. Henni var svo brugðið þegar greiningin hafði áhrif á það þegar hún ætlaði að fá sér líftryggingu, ADHD var þar talinn mikill áhættuþáttur.

„Þetta var í fyrsta skipti sem greiningin stendur í vegi fyrir mér.“

Hún veltir því fyrir sér hvað börnunum sem eru með greiningar muni finnast um þær seinna meir. Kannski vilji þau ekkert vera með greininguna og hvernig það sé að breyta því þegar greiningin er þegar komin.

Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér ofar í fréttinni.


Tengdar fréttir

„Lífið er ekki sanngjarnt“

„Það er gott að leita til fólks sem hefur gengið í gegnum eitthvað svipað,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir lögfræðingur og dómsmálaráðherra.

Ríkið ætti að fjárfesta meira í lífsgæðum fatlaðra barna

„Framlag einhverra sem eru með fatlanir og eru að taka þátt í samfélaginu getur verið alveg jafn mikils virði og einhvers fíns forstjóra,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir varaformaður Samfylkingarinnar og fjögurra barna móðir. Hún er líka formaður velferðarráðs og ofbeldisnefndar Reykjavíkurborgar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.