Fótbolti

KSÍ alfarið á móti ofurdeildinni og myndi styðja refsingu

Sindri Sverrisson skrifar
Guðni Bergsson er formaður KSÍ.
Guðni Bergsson er formaður KSÍ. vísir/vilhelm

Knattspyrnusamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna áforma tólf af þekkustu knattspyrnufélögum Evrópu sem hyggjast koma Ofurdeildinni svokölluðu á fót.

KSÍ, sem er vitaskuld eitt af aðildarsamböndum UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, tekur skýra afstöðu gegn stofnun ofurdeildarinnar. Það hefur UEFA einnig gert og ætlar að banna þeim leikmönnum sem spila í ofurdeildinni að spila með landsliðum sinna þjóða.

Í yfirlýsingu KSÍ kemur fram að ef á reyni muni sambandið styðja hverja þá ákvörðun um viðurlög eða refsingu sem tekin verði á „sameiginlegum vettvangi knattspyrnuhreyfingarinnar“. 

Yfirlýsing KSÍ:

KSÍ tekur skýra afstöðu gegn stofnun nokkurra af ríkustu knattspyrnufélögum í Evrópu á “ofurdeild” og lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun þessara félaga.

Samstaða og samheldni eru sterkustu gildi knattspyrnuhreyfingarinnar. Þessi gildi ná til knattspyrnusambanda og knattspyrnufélaga um alla álfuna og ákvörðun þessara félaga brýtur gegn þeim gildum. Það er óásættanlegt.

Það er von KSÍ að þessi félög sjái að sér og dragi fyrirætlanir sínar til baka, en ef ekki þá mun KSÍ styðja hverja þá ákvörðun um viðurlög eða refsingu sem tekin verður á sameiginlegum vettvangi knattspyrnuhreyfingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×