Innlent

Nýtt gosop opnaðist í gígjaðrinum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nýja opið er í jaðri eins gígsins sem fyrir er á svæðinu.
Nýja opið er í jaðri eins gígsins sem fyrir er á svæðinu. Aðsend

Nýtt gosop opnaðist á gossvæðinu við Fagradalsfjall á þriðja tímanum í dag. Opið er lítið og opnaðist á milli gíganna sem fyrir eru, á skilgreindu hættusvæði. 

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að þetta sé ósköp eðlileg þróun mála. Hann telji líklegast um að ræða lengingu á gosopi til suðurs en nýja opið opnaðist í jaðri nyrðri gígsins sem opnaðist 13. apríl, að sögn Þorvaldar.

„Þetta eru litlar breytingar, frekar tíðindalitlar hvað gosið varðar þannig séð og framgang gossins. Það mun halda áfram, þetta er ekki merki um að stórfelldar breytingar séu í gangi,“ segir Þorvaldur.

Nýja opið sést hægra megin í jaðri gígsins lengst til vinstri á vefmyndavél RÚV hér fyrir neðan.

Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðingur segir í samtali við fréttastofu að Veðurstofan hafi orðið vör við óróa á svæðinu um klukkan hálf tvö. 

Björgunarsveitir hafi farið á svæðið að kanna málið og almannavarnir svo staðfest við Veðurstofuna að lítill gígur hefði opnast á þriðja tímanum. Sérfræðingum Veðurstofunnar hefur ekki tekist að staðsetja gígopið nákvæmlega en Bjarki segir að hann sé mjög lítill og á milli þeirra gíga sem fyrir eru á svæðinu; í línu við gígana í Geldingadölum og nyrsta gíginn við Meradali. 

„RÚV-myndavélin er í gangi en það gengur á með éljum svo það er frekar erfitt að átta sig á þessu en maður sér smá bjarma,“ segir Bjarki. Ekki verður hægt að segja til um það fyrr en næst verður flogið yfir svæðið hvort hraunflæði hafi aukist.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við sjáum óróann og getum sagt að kannski sé eitthvað að fara að gerast og svo gerist það.“

Fyrstu upplýsingar sem fréttin byggði á bentu til þess að ný sprunga hefði opnast. Betur fer á því að segja að um nýtt gosop sé að ræða. Það hefur verið leiðrétt. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×