Innlent

Hafnar því að Þórunn hafi ýtt sér í annað sætið

Jakob Bjarnar skrifar
Guðmundur Andri í ræðupúlti Alþingis. Hann ætlar sér aftur á þing, eftir komandi kosningar, þó í öðru sæti sé nú.
Guðmundur Andri í ræðupúlti Alþingis. Hann ætlar sér aftur á þing, eftir komandi kosningar, þó í öðru sæti sé nú. vísir/vilhelm

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar segir það ekki svo að Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi ýtt honum niður í annað sæti á lista flokksins í Kraganum.

„Ég er stundum að heyra og lesa það í fjölmiðlum að Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi „ýtt mér“ í annað sætið á lista Samfó í Kraganum. Þannig lít ég nú ekki á það, ef einhver hefði fyrir því að spyrja mig,“ segir Guðmundur Andri í pistli sem hann birtir á Vísi.

Eins og fram hefur komið mun Þórunn skipa 1. sæti á lista Samfylkingar í Kraganum, en þar var Guðmundur Andri fyrir síðustu kosningar. Hann segist ekki líta á stjórnmál sem íþróttakeppni einstaklinga þar sem öllu varði að ná fyrsta sæti en maður hafi „tapað“ ef maður er í öðru sæti. 

„Ég lít ekki á fyrsta sæti á lista sem vígi karla sem mér beri að verja með öllum ráðum. Stjórnmál eru ekki einstaklingsíþrótt heldur samvinnuverkefni,“ segir í pistli Guðmundar Andra.

Guðmundur Andri rekur þá hvernig stjórnmál horfi við sér en segir í niðurlagi að hann ætli sér inn á þing, þó í öðru sæti sé.

„Svo er það hitt: Ég vann aftur þingsæti í Kraganum fyrir Samfylkinguna árið 2017, og næst ætla ég að endurheimta annað sæti í þessu forna vígi jafnaðarmanna, enda keppnismaður. Ég er sannfærður um að það muni takast, eins og allar skoðanakannanir benda raunar til ... og mér finnst það heiður að vera trúað fyrir því.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.