Skoðun

Um hvað snúast stjórnmál

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Ég er stundum að heyra og lesa það í fjölmiðlum að Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi „ýtt mér“ í annað sætið á lista Samfó í Kraganum. Þannig lít ég nú ekki á það, ef einhver hefði fyrir því að spyrja mig.

Ég lít ekki á stjórnmál sem íþróttakeppni einstaklinga þar sem öllu varði að ná fyrsta sæti en maður hafi „tapað“ ef maður er í öðru sæti. Ég lít ekki á fyrsta sæti á lista sem vígi karla sem mér beri að verja með öllum ráðum. Stjórnmál eru ekki einstaklingsíþrótt heldur samvinnuverkefni.

Stjórnmál snúast um stefnuog hugsjónir. Stjórnmál snúast um fjárlög og skattheimtu. Stjórnmál snúast um veiðigjöld og arð af auðlindum í þjóðareigu. Stjórnmál snúast um kaup og kjör. Stjórnmál snúast um réttláta skiptingu gæða og byrða. Stjórnmál snúast um aðild að Evrópusambandinu og annað samstarf við Evrópuþjóðir. Stjórnmál snúast um skólakerfið. Stjórnmál snúast um réttindamál. Stjórnmál snúast um loftslagsvá og náttúruvernd. Stjórnmál snúast um afstöðu til opinberra stofnana í þjónustu við almenning. Stjórnmál snúast um jafnrétti. Stjórnmál snúast um menningarmál. Stjórnmál snúast um heilbrigðiskerfið. Stjórnmál snúast um almannahagsmuni og sérhagsmuni.

Stjórnmál snúast um ólíka afstöðu til þessara og annarra mála, og þó að auðvitað skipti máli hvaða fulltrúar það eru sem tala fyrir sjónarmiðum og taka ákvarðanir út frá hugsjónum þá má ekki einblína á persónur og leikendur, hvort þessi eða hinn eða í fyrsta eða öðru sæti í ímyndaðri íþróttakeppni. Stjórnmál snúast um stefnu og hugsjónir.

Svo er það hitt: Ég vann aftur þingsæti í Kraganum fyrir Samfylkinguna árið 2017, og næst ætla ég að endurheimta annað sæti í þessu forna vígi jafnaðarmanna, enda keppnismaður. Ég er sannfærður um að það muni takast, eins og allar skoðanakannanir benda raunar til ... og mér finnst það heiður að vera trúað fyrir því.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×