Innlent

Samþykkt að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður samkvæmt frumvarpi sem var samþykkt á Alþingi í dag.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður samkvæmt frumvarpi sem var samþykkt á Alþingi í dag. vísir/Vilhelm

Nýsköpunarmiðstöð verður lögð niður og nýtt tæknisetur tekur við verkefnum hennar samkvæmt frumvarpi sem var samþykkt á Alþingi í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar mótmæltu harðlega við atkvæðagreiðslu. Málið væri skaðlegt og vanhugsað.

Samkvæmt frumvarpi um opinberan stuðning við nýsköpun sem samþykkt var á Alþingi í dag verða nýsköpunarmál færð í nýtt einkahlutafélag í eigu ríkissjóðs. Til stendur að stofna tæknisetur sem á að taka við verkefnum Nýsköpunarmiðstöðvar sem verður lögð niður.

Í frumvarpinu segir að forsenda breytinganna sé að starfsemi tækni- og rannsóknarseturs eigi betur heima í félagaformi en innan stofnunar í eigu ríkisins.

„Við lögðum út í þetta verkefni því ég er þeirrar skoðunar að það sé skylda okkar stjórnmálamanna að vera stanslaust að rýna hvar hið opinbera geti sinnt verkefnum betur og hverju megi einfaldlega hætta með áherslu á að forgangsraða til framtíðar,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra við atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag.

Þórdís Kolbrún Reykjfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.vísir/Vilhelm

Frumvarpið er umdeilt og hefur Nýsköpunarmiðstöð gagnrýnt það harðlega og talið málaflokkinn betur eiga heima í opinberum rekstri.

Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 25 og vísuðu þingmenn stjórnarandstöðunnar til andstöðu sem birtist í fjölda neikvæðra umsagna.

„Þrjátíu umsagnir bárust um þetta mál til Alþingis, tveir þriðju neikvæðar. Það er ótrúlega mikið búið að benda á að þetta er ótrúlega lélegt frumvarp. Þetta er að valda skaða,“ sagði Smári Mccarthy, þingmaður Pírata.

„Þetta mál er dæmi um allt það versta sem gerist hér á Alþingi þegar fram kemur slæmt mál. Allir vita að það er slæmt en því er samt böðlað áfram. Þeir sem koma sem gestir fyrir nefnd lýsa áhyggjum. Umsagnir eru neikvæðar, starfsfólkið var ekki haft með í ráðum. Það er allt rangt við þetta frumvarp,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuvegnanefndar, sagði aftur á móti fyrirkomulagið lið í því að styrkja nýsköpun.

„Ríkisstjórnin hefur verið að leggja mikla fjármuni í nýslöpun í landinu, um sjötíu prósent aukning. Þetta er eitt af því sem við erum að gera til þess að styrkja nýsköpunarumhverfi í landinu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.