Hámarkshraði á götum í eigu borgarinnar verður hvergi yfir fimmtíu kílómetrum á klukkustund samkvæmt nýsamþykktri áætlun borgarinnar. Stefnan er að inni í hverfum verði hámarkshraði 30 en 40 á stofnæðum.
Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó segir að uppi hafi verið áhyggjur um að lækkunin gæti haft neikvæð áhrif á ferðatíma og rekstrarkostnað Strætó.
„Það felst þá í því að leiðirnar eru skipulagðar þannig að við reynum að nýta vagnana sem best. Þar af leiðandi ef meðalhraðinn lækkar nær sá vagnafjöldi sem er notaður í dag ekki til að keyra leiðina og þá þyrfti að bæta við vögnum.“

Bent er á það í svari Reykjavíkurborgar við umsögn Strætó um hraðalækkunina að aksturshraði strætisvagna nái oft ekki núverandi hámarkshraða, til dæmis vegna umferðarljósa, biðstöðva, gatnamóta og annarrar umferðar. Greining á mögulegum áhrifum, sem ættu þó samkvæmt fyrstu niðurstöðum að vera óveruleg, stendur nú yfir.
„Eina mótvægisaðgerðin til þess að þá allavega lágmarka algjörlega þessi áhrif ef einhver eru er náttúrulega bara að Strætó fái forgang á umferðarljósum. Við höfum séð það í gegnum tíðina í okkar gögnum að mestu stoppin eru í kringum gatnamót og ef við getum minnkað þau hef ég ekkert verulegar áhyggjur af þessu,“ segir Jóhannes.
Jóhannes kveðst sjálfur jákvæður gagnvart boðuðum breytingum en þær þurfi að ígrunda vel.
„Rökin eru allavega mjög skýr og það vita það svosem flestir að minni meðalhraði hefur góð áhrif á öryggi annarra í umferðinni. Þannig að út frá því er þetta hið besta mál en það þarf auðvitað að skoða allar hliðar teningsins.“