Innlent

Fleiri bólusettir í dag en búist var við

Heimir Már Pétursson skrifar

Fleiri komust að í bólusetningum í dag en gert var ráð fyrir eða hátt í sex þúsund manns. Stefnt er að því að klára að bólusetja alla eldri en sextíu og fimm ára með undirliggjandi sjúkdóma í næstu viku og hefja þá bólusetningu fólks í þeim hópi sem er yngra en sextíu og fjögurra ára.

Í dag átti að reyna að klára að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk utan heilbrigðisstofnana og fólk með undirliggjandi sjúkdóma á aldrinum sextíu og fimm ára og eldra. Það er greinilegt aðheilbrigðistsarfsfólk utan stofnana fer eftir skilaboðum sóttvarnalæknis um að mæta ekki ef það er ekki beint að sinna sjúklingum. Því var hægt að boða fleiri til bólusetningar sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir var hæst ánægð með hvað fólk brást vel við boðunum þegar ljóst var í dag að hægt væri að bólusetja um þúsund fleiri en áætlað hafði verið.Stöð 2/Sigurjón

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að vegna þessa hafi verið hægt að boða fleiri til bólusetningar sem eru með undirliggjandi sjúkdóma í dag en upphaflega voru fimm þúsund manns boðaðir.

„Þannig að við gátum boðið þúsund manns með undirliggjandi sjúkdóma aukalega að koma.“

Finnið þið að fólki í þeim þeim hópi er létt að komast í bólusetningu í dag? 

„Já fólk er að bregðast við með ótrúlega stuttum fyrirvara. Það eru bara fimm mínútur og það er bara mætt. Þannig að það er frábært,“ segir Ragnheiður Ósk.

Í lok næstu viku sé stefnt að því að ljúka bólusetningum sextíu og fimm ára og eldri með undirliggjandi sjúkdóma og byrja á sama hópi sem eru sextíu og fjögurra ára og yngri. Það séu um tuttugu þúsund manns. Fólk eigi að bíða rólegt því boðað sé eftir alvarleika sjúkdómanna.

Bólusetningar tæplega sex þúsund manns gekk mjög hratt og vel í Laugardalshöll í dag.Stöð 2/Sigurjón

„Út þennan mánuð erum við að vinna vel með Pfizer efnið. Það er að koma í auknu magni til okkar. Þannig að við erum hverja viku með þó nokkuð meira magn heldur en við höfum verið síðast liðnar vikur. Þá erum við að vinna okkur niður alla þessa hópa meðu ndirliggjandi sjúkdóma. Það verður áherslan núna í apríl,“ segir Ragnheiður Ósk.

Röðin skot gekk í dag enda færibandið orðið vel smurt. Flestir voru í hátíðarskapi að fá loks bólusetningu eins og Kristín Elídóttir.

„Þegar maður er með undirliggjandi sjúkdóma þá er þetta svo mikilvægt. Að geta farið að hitta aðeins barnabörnin sem maður hefur ekki getað verið að hitta í langan tíma,“ segir Kristín.

Sigurbjörn Jónsson hafði ekki reiknað með að fá boðun í bólusetningu í dag en var mjög ánægður með að hafa fengið boðun.

„Þetta kom nú bara svo skyndilega. Ég fékk SMS fyrir einum og hálfum tíma. Ég var svo sem ekkert að stressa mig á þessu.“

En þú hefur bara rokið eins og skot af stað?

„Já, já,“ sagði Sigurbjörn og var rokinn nýbólusettur út í sólskinið.

Björk Bjarnadóttir segir það hafa verið lítið mál að einangra sig með prjónana en var mjög fegnin að hafa fengið loks bólusetningu í dag.Stöð 2/Sigurjón

Björk Bjarnadóttir og hennar maður fengu einnig óvænt boðun og ruku af stað úr Keflavík.

„Þetta kom mér svolítið á óvart. Ég bjóst ekki við þessu. En ég var óskaplega fegin.“

Hefur þú þurft að einangra þig mikið undanfarna mánuði?

„Við höfum gert það. Það er enginn vandi þegar maður er búin að byrgja sig upp af lopa og fíneríi þá getur maður bara setið.“

Það er nóg við að vera?

„Já nóg við að vera,“ segir Björk glöð með sig og sitt.

En það er öryggi að vera loksins komin með þetta?

„Já, alveg mikið öryggi og ég þakka kærlega fyrir mig,“ sagði Björk Bjarnadóttir þar sem hún sat og jafnaði sig eftir sprautuna.


Tengdar fréttir

Fresta bólusetningu með bóluefni Janssen

Þórólfur Guðnason segir að beðið verði með bólusetningar með bóluefni Janssen þar til betri upplýsingar liggja fyrir um mögulegar aukaverkanir.

Fimm þúsund bólusettir í Laugardalshöll í dag

Stór bólusetningardagur verður í Laugardalshöll í dag þegar byrjað verður að bólusetja fólk með undirliggjandi sjúkdóma og klárað að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk utan stofnanna. Framkvæmdastjóri hjúkrunar segir útlitið gott varðandi bólusetningar í mánuðinum.

„Af hverju færð þú bólusetningu langt á undan mér?“

Bólusetningar standa yfir um þessar mundir á um 20.000 manna hópi hér á landi, sem eru heilbrigðisstarfsmenn utan heilbrigðisstofnana ríkisins. Þessi hópur er á undan fólki með undirliggjandi sjúkdóma í forgangsröðinni en samt er ljóst að fjölmargir innan hans hafa ekki eins brýna þörf á vörn og veikt, eldra fólk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×