Fótbolti

Raiola vill rosa­leg laun fyrir Håland

Anton Ingi Leifsson skrifar
Håland hefur dregið Dortmund á herðum sér það sem af er leiktíð.
Håland hefur dregið Dortmund á herðum sér það sem af er leiktíð. Nico Vereecken/Getty

Erling Braut Håland er einn eftirsóttasti leikmaðurinn í alheimsfótboltanum í dag en hann hefur slegið í gegn hjá Borussia Dortmund.

Umboðsmaður Håland hefur ferðast um Evrópu síðustu vikurnar og rætt við stórlið á Spáni og á Englandi en líkur eru á að sá norski hugsi sér til hreyfings í sumar.

The Mirror greinir nú frá því að Mino Raiola, sem er umboðsmaður Håland, sé með hugmyndir um að gera Håland að launahæsti leikmanni í heimi.

Manchester City, Real Madrid, PSG og Barcelona hafa verið nefnd sem mögulegur áfangastaður en þessi félög þurfa að taka upp veskið ætli þau að klófesta Håland.

Real og Barcelona eru sögð hafa verið ansi hissa er Raiola ræddi möguleg laun Norðmannsins en Raiola er sagður vilja fá milljón pund á viku fyrir umbjóðanda sinn.

Mirror greinir einnig frá því að það gæti farið svo að samningurinn við Håland verði einn sá flóknasti vegna launakröfu Hålands og Raiola.

Dortmund vill þó, eðlilega, halda lengur í Håland en þeir vilja að minnsta kosti fá 154 milljónir punda fyrir hann í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×