Innlent

Meintur mannræningi var búsettur á Íslandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Björgvin í Noregi.
Frá Björgvin í Noregi. Vísir/Getty

Pólskur karlmaður sem var handtekinn á Íslandi vegna mannrána- og líkamsárása í Björgvin í Noregi var búsettur hér á landi. Bróðir hans og annar maður hlutu fangelsisdóma vegna brotanna.

Norskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að pólskur karlmaður hefði verið handtekinn á Íslandi í tengslum við svonefnt Osen-mál frá árinu 2015. Málið vakti mikla athygli í Noregi en þá óþekktir menn réðust á og rændu listaverkasala að nafni Osen í miðborg Björgvinjar. Nokkrum árum síðar var málið tengt við aðra líkamsárás og mannrán í borginni sama ár.

Sólberg Bjarnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, segir að þegar alþjóðlegar eftirlýsingar eins og sú sem norsk yfirvöld gáfu út vegna pólska mannsins eru gefnar út sé þeim eftirlýsta flett upp í gagnagrunnum hér á landi. Í ljós kom að maðurinn var búsettur á Íslandi. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók manninn, sem er á fertugsaldri, um páskana og var hann úrskurðaður í farbann í framhaldinu. Norskir fjölmiðlar segja að hann hafi sjálfur fallist á að vera framseldur til Noregs. Sólberg segir að hann hafi þegar verið afhentur norskum yfirvöldum.

Rannsókn Osen-málsins dróst á langinn í Noregi en fimm árum eftir að brotin voru framin hlutu tveir pólskir karlmenn á fertugsaldri fangelsisdóma. Maðurinn sem var handtekinn á Íslandi er bróðir annars þeirra.

Annar þeirra sakfelldu hlaut fimm ára og fjögurra mánaða fangelsisdóm. Sá sem á bróðurinn sem var handtekinn á Íslandi var sýknaður af ákæru um stórfellda líkamsárás á Osen en hlaut tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir rán og líkamsárás á annan mann sama ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×