Innlent

Mögu­leiki á að sprunga opnist á göngu­leiðinni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Opnist ný sprunga suður af gosstöðvunum í Geldingadölum gæti það verið á annarri gönguleiðinni sem opin hefur verið almenningi.
Opnist ný sprunga suður af gosstöðvunum í Geldingadölum gæti það verið á annarri gönguleiðinni sem opin hefur verið almenningi. Vísir/Vilhelm

Möguleiki er á því að nýjar sprungur opnist vegna eldgossins í Fagradalsfjalli og gætu nýjar sprungur opnast bæði suður- og norður af þeim sprungum sem þegar hafa opnast. Eldfjallafræðingur segir fólk þurfa að vara sig við gosstöðvarnar en þar sé nú aukin hætta á gasmengun.

„Hættan hefur í raun og veru aukist verulega með þessum nýju breytingum sem hafa orðið á gosinu. Í staðin fyrir að vera bara með eitt auga að pumpa gasinu inn í andrúmsloftið erum við með þrjú,“ sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Aukin hætta stafar af gasinu og svo náttúrulega sýna þessar nýju sprungur að gossprungan sjálf hefur alla möguleika á að lengjast,“ segir Þorvaldur.

„Hún gæti lengst í norður, og það er miklu líklegra, en það er líka hugsanlegt að það gerist í suðurátt. Ef það gerist í suðurátt þá er það í beina stefnu að öðrum göngustígnum upp að gosstöðvunum.“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.Stöð 2

Þorvaldur segir að mjög lítill fyrirvari gefist opnist önnur sprunga.

„Þegar kvikan er komin svona hátt í skorpunni, hún er í raun að finna sér leið allra efst, þá geta opnast sprungur og kvika komið upp fyrirvaralaust á þessum stöðum,“ segir Þorvaldur.

Hann segir þó í lagi að fólk geri sér ferð að gosstöðvunum ef það fer varlega, heldur sig í góðri fjarlægð og finnur góðar leiðir að gosinu.

„Þá þarf að íhuga að ekki sé gengið yfir hugsanlegan stað þar sem sprungur eru og eins líka að vera með möguleika að fólk geti verið alltaf með vindinn í bakið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×