Fótbolti

Blikaáherslur í landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir hefur leikið tíu A-landsleiki.
Alexandra Jóhannsdóttir hefur leikið tíu A-landsleiki. vísir/vilhelm

Alexandra Jóhannsdóttir er ekki ókunn þeim áherslum sem Þorsteinn Halldórsson hefur komið með inn í íslenska landsliðið.

Ísland mætir Ítalíu í tveimur vináttulandsleikjum, á laugardaginn og þriðjudaginn, en þetta eru fyrstu leikirnir undir stjórn Þorsteins. Alexandra þekkir vel til hans eftir tíma þeirra saman hjá Breiðabliki.

„Hann hefur komið með svolítið af áherslum með Breiðablik var með. Það er því ekki nýtt fyrir mig eða aðrar sem voru hjá honum í Blikum,“ sagði Alexandra sem stimplaði sig inn í landsliðið í undankeppni EM 2021. 

„Hann leggur mikla áherslu á sóknarleikinn sem er geggjað. En þetta eru engar svaka breytingar. Þetta er bara fótbolti.“

Tekið á andlega

Hafnfirðingurinn gekk til liðs við Frankfurt í vetur. Hún viðurkennir að fyrstu mánuðirnir í atvinnumennskunni hafi verið krefjandi.

„Þetta hefur tekið svolítið á andlega. Það er allt lokað úti. Maður mætir bara á æfingu og fer svo heim og slakar á,“ sagði Alexandra.

Alexandra varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með Breiðabliki.vísir/bára

„En ég er að komast betur inn í hlutina og bætt mig í tækniatriðum sem hafa verið minn veikleiki. Ég vonast til að vinna mig inn í liðið.“

Hlakkaði til að komast aftur á landsliðsæfingar

Alexandra er ánægð að með að vera komin aftur í landsliðið.

„Ég hef hlakkað svo mikið til komast á landsliðsæfingar. Það er gott að geta hitt stelpurnar og talað íslensku. Ég er svolítið komin aftur inn í þægindarammann minn,“ sagði Alexandra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×