Innlent

„Vandinn snýr að sundurlyndi ríkisstjórnarinnar í þessu“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fundi velferðarnefndar Alþingis um næstu skref í skugga niðurstöðu héraðsdóms er nú lokið en hann stóð yfir í um fjórar og hálfa klukkustund.
Fundi velferðarnefndar Alþingis um næstu skref í skugga niðurstöðu héraðsdóms er nú lokið en hann stóð yfir í um fjórar og hálfa klukkustund.

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, telur að það sé einna helst sundurlyndi ríkisstjórnarflokkanna um að kenna hvernig fór um reglugerð um skyldudvöl í sóttvarnarhúsi.

Þrátt fyrir að heilbrigðisráðherra myndi ákveða að leggja fram frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum til að tryggja lagagrundvöll sóttvarnaaðgerða þá er Helga Vala ekki endilega sannfærð um að málið næði fram að ganga.

Fundi velferðarnefndar Alþingis um næstu skref í skugga niðurstöðu héraðsdóms er nú lokið. Fundurinn hófst klukkan tíu í morgun og stóð því yfir í um fjóra og hálfa klukkustund. 

Sérfræðingar fyrir nefndina hver á fætur öðrum

Í gær úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að ekki væri lagastoð fyrir reglugerð ráðherra um skyldudvöl fólks frá áhættusvæðum í sóttvarnarhúsi. Sóttvarnalæknir, í samráði við heilbrigðisráðuneytið, hefur kært niðurstöðuna til Landsréttar.

Fyrir fund velferðarnefndar í dag komu meðal annars heilbrigðisráðherra, sóttvarnalæknir og lögspekingar sem rýndu í þá stöðu sem komin er upp.

„Og þá þurfum við að íhuga hvað við viljum gera og hvernig við viljum bregðast við. Viljum við fara í lagasetningu? Mun ráðherra leggja fram frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum, þá væntanlega í dag? Eða ætlum við að láta þetta duga það sem við erum að gera núna?“

En er kominn upp einhver rembihnútur? Ríkir ekki eining um að leggja fram frumvarp þannig að það sé styrkari lagastoð fyrir þessum aðgerðum? Hver er staðan og hvernig er andrúmsloftið, er eining um þetta?

„Nei, ég var nú að glugga í frétt á Vísi þar sem einn ákveðinn þingmaður stjórnarliðsins, Sjálfstæðisflokksins lýsir yfir algjörri andstöðu við lagasetningu og mín tilfinning er sú að það séu nú fleiri þar innanborðs sem séu algjörlega andsnúnir því að lögin styðji þessar aðgerðir þannig að mér sýnist að helsti ágreiningurinn sé innan stjórnarflokkanna; á milli þeirra.“

En var uppleggið á fundinum sjálfum að stefna í átt að lagasetningu?

„Við erum auðvitað löggjafinn. Alþingi er löggjafinn og þess vegna heyrir undir okkur að bregðast fljótt við ef vilji er fyrir því, þá þarf að vera meirihluti fyrir því og vandinn snýr að sundurlyndi ríkisstjórnarinnar í þessu. Stjórnarflokkarnir eru alls ekki samstíga um nauðsynlegar aðgerðir á þessum tímapunkti.“

Kom til tals að nefndin myndi leggja fram frumvarp?

„Það var svona aðeins rætt, þeirri umræðu lauk ekki en það var aðeins rætt og er engin niðurstaða í því af því við erum að bíða eftir að fá að heyra í ráðuneytinu. Við væntum þess að heyra frá þeim seinna í dag. Heimsókn ráðherra var auðvitað snemma í morgun og síðan erum við búin að funda í fjóra og hálfa klukkustund þannig að ég á eftir að heyra í ráðuneytinu hver næstu skref eru þar“

Hver heldur þú að séu líklegustu næstu skref í málinu?

„Mér þætti eðlilegt á þessum tímapunkti, svo ég tali bara út frá mér, að við styðjum og styrkjum lögin til að þessar heimildir haldi en aftur segi ég, mér sýnist ósamstaðan helst vera innan stjórnarflokkanna.“

Helga Vala segir að nokkrir þættir málsins hafi betur mátt fara. Ríkisstjórnin hafi í of miklum mæli haft þann háttinn á í faraldrinum að bregðast við í staðinn fyrir að sýna frumkvæði og árvekni.

Ráðherrar á fundi í Hörpu á dögunum þar sem tilkynnt var um tíu manna samkomubann.vísir/vilhelm

„Það er kannski aðallega það að svo virðist sem að upplýsingaflæðið sé ekki nægilega gott hjá þeim sem framkvæma eiga þær ráðstafanir sem stjórnvöld taka ákvörðun um. 

Og það virðist sem ríkisstjórnin sé í rauninni ekki fyrir framan aðgerðirnar heldur sé alltaf að bregðast við einhverjum óvæntum uppákomum jafnvel þó að um sé að ræða aðgerðir sem stjórnvöld sjálf setja, þá virðast þau ekki geta undirbúið sig fyrir ýmsa möguleika sem bregðast þarf við, það sést til dæmis á þessu útgöngubanni út af sóttvarnarhótelinu. 

Það er ekki hægt að sjá nein merki um að sóttvarnalæknir hafi lagt það til í minnisblaði sínu og fleira í þeim dúr. Og þegar hópurinn kemur á hótelið þá virðist vera sem starfsfólkið hafi ekki verið með allar upplýsingar alveg á hreinu. Þegar svo einhver mótmælir að þá virðist vera sem það hafi verið aðeins óljóst hver ætlaði að grípa þessi mótmæli og bera þau undir héraðsdóm.“

Helga Vala telur að fljótfærni sé ekki um að kenna í málinu.

„Að mínu mati, ég verð bara að segja mína skoðun á þessu, en það var ekki samstaða innan stjórnarflokkanna á sínum tíma þegar við vorum að gera endurbætur á sóttvarnalögunum og þess vegna fer þetta ekki skýrt inn því það var ekki ætlunin að setja inn ákvæði um að sóttvarnalæknir gæti skyldað fólk til dvalar í sóttvarnarhúsi. Þetta er minn skilningur.“


Tengdar fréttir

Fólk segi fyrst frá þegar því sé lofað að sleppa við sekt

Sóttvarnalæknir telur óvíst að það myndi skila tilætluðum árangri að beita hærri og tíðari sektum fyrir brot á sóttkví. Megnið af þeim sýkingum sem upp hafa komið að undanförnu má rekja til fólks sem hefur ekki haldið sóttkví, einkum þeirra sem hafa komið frá útlöndum.

Segir ríkisstjórnina glannalega

Sóttvarnarlæknir hefur kært úrskurð héraðsdóms um sóttkvíarhótel til Landsréttar og skorar á stjórnvöld að breyta lögum þannig að heimilt verði að skylda farþega þar í sóttkví. Velferðarnefnd Alþingis fundar nú um næstu skref.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.