Lífið

Heimsmeistarinn loftar út fyrir kónginn

Kjartan Kjartansson skrifar
Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák.
Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák. Vísir/EPA

Magnus Carlsen, norski heimsmeistarinn í skák, hrókeraði nýlega í ástarlífi sínu þegar hann sleit samvistum við Elisabetu Lorentzen Djønne, kærustu sína til tveggja ára.

Norska blaðið VG segir að bæði Carlsen og Lorentzen Djønne staðfesti að sambandi þeirra sé lokið og að þau búi ekki lengur saman. Þau höfðu deilt glæsiíbúð í Tjuvholmen í Osló sem Carlsen keypti á meira en 312 milljónir íslenskra króna í fyrra.

„Við skiljum sem vinir,“ segir Carlsen við VG sem virðist hafa séð ástæðu til þess að lofta út fyrir kónginn eins og sagt er á taflmáli.

Lorentzen Djønne var fyrirsæta í glanstímaritinu Séð og heyrt. Hún fylgdi spúsa sínum meðal annars eftir þegar Carlsen varð heimsmeistari í hraðskák í Moskvu árið 2019.

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur Carlsen, sem er þrítugur, ekki teflt á tvær hættur undanfarið og teflt að mestu leyti á netinu. Þó er búist við að hann freisti þess að verja heimsmeistaratitil sinn á móti í Dubai síðar á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×