Innlent

Gosið gæti varað í mánuði eða ár

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur hefur unnið að mati á jarðvá á Reykjanesskaga undanfarin ár.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur hefur unnið að mati á jarðvá á Reykjanesskaga undanfarin ár. Vísir/Vilhelm

Eldgos í Geldingadölum gæti varað í marga mánuði ef ekki nokkur ár, að mati Þorvalds Þórðarsonar, prófessors í eldfjallafræði. Hann segir að enn sé nóg í tankinum.

„Við erum búin að hafa átta hundruð ár til að safna kviku í tankinn sem er þetta geymsluhólf á sautján til tuttugu kílómetra dýpi og bræðslan sem býr til þetta efni sem fer í tankinn hún er alltaf í gangi og verður í gangi um langan tíma,“ sagði Þorvaldur í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Þorvaldur sagði að málið snerist ekki um hvort nóg sé til af kviku. Spurningin væri miklu fremur hversu greiða leið hún ætti til yfirborðs.

Hann segir erfitt að spá fyrir um hvenær gosið líði undir lok því það sé ólíkt mörgum öðrum gosum sem Íslendingar þekkja, á borð við Heklu og Kötlu, þar sem mikill yfirþrýstingur byggðist upp í geymsluhólfum með þeim afleiðingum að upp úr gaus af gríðarlegu afli.

Þar hafi í kjölfarið orðið þrýstifall og gosin hafi dvínað jafnt og þétt með tímanum og að endingu hætt. Það sama sé ekki upp á tengingnum í gosinu Geldingadölum sem hefur haldist fremur stöðugt.

„Í þessu tilfelli var ekkert svoleiðis. Það kom upp með þessa framleiðni sem það er með í dag, það er búið að vera nákvæmlega eins. Þetta er eins konar títiprjónsgat á blöðruna og það lekur bara smátt og smátt úr henni en það lekur stöðugt úr henni,“ sagði Þorvaldur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×