Innlent

Fylgjast náið með aukinni virkni við Þrengslin

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Aukin virkni við Þrengslin hófst aðfaranótt föstudags. 
Aukin virkni við Þrengslin hófst aðfaranótt föstudags.  Vísir/Getty

Alls er óvíst hvaða þýðingu aukin skjálftavirkni við Þrengslin hefur. Jarðhræringar hófust á svæðinu aðfaranótt föstudags og í nótt urðu tveir snarpir skjálftar.

Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur segir í samtali við fréttastofu að gögn og mælingar hafi hingað til ekki bent til innskotavirkni. Skjálftavirknin geti verið fyrir helbera tilviljun, enda ekki óeðlilegt að skjálftahrinur verði við Þrengslin og nágrenni.

Í nótt riðu yfir tveir sæmilega stórir skjálftar rúman kílómetra vestur af Þrengslunum, annar mældist 2,6 og hinn 2,9 að stærð.

Elísabet segir að sérstaklega sé fylgst með þróun mála við Þrengslin vegna eldgossins í Geldingadölum og þeirra sviðsmynda sem vísindaráð almannavarna hefur teiknað upp. Ein þeirra lýtur að kraftmiklum jarðskjálfta í Brennisteinsfjöllum, jafnvel stærri en sex að stærð.

„Okkar útreikningar benda til þess að uppbyggð spenna sé þarna.“

Stöðugt hraunrennsli hefur verið í Geldingadölum í allan dag en Elísabet kveðst þó spennt að sjá hvað nýjustu tölur yfir rennsli leiði í ljós. Þá sé enn spurning hvort gígarnir tveir renni saman í einn.

Veðurfræðingur hjá veðurstofu Íslands sagði á fjórða tímanum að upp úr klukkan sex eða sjö myndi draga verulega úr vindi á Reykjanesskaga. Gasmengun getur orðið mikil í hægviðri og því ástæða til að ítreka við fólk að fylgjast vel með fréttum og tilkynningum.


Tengdar fréttir

Óhugnanlega margir miðað við faraldurinn og fólk beðið um að huga að smitvörnum

Fljúgandi hálka er á gönguleiðum við Geldingardali og lögregla biður fólk um að vera vel útbúið með hálkubrodda. Koma þurfti nokkrum til aðstoðar í gær sem ýmist duttu eða tognuðu á leiðinni. Björgunarsveitarmaður segir óhugnalega marga á svæðinu með tilliti til faraldursins og biður fólk um að huga að smitvörnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×