Innlent

Mögu­lega dregið úr virkni en ekkert bendi til að gosinu sé að ljúka

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sérfræðingar ætla að kanna hvort dregið hafi úr gosóróa.
Sérfræðingar ætla að kanna hvort dregið hafi úr gosóróa. Vísir/Vilhelm

Sérfræðingar Veðurstofunnar munu kanna hvort dregið hafi úr virkni eldgossins í Geldingadölum í nótt. Óróamælingar næturinnar kunni að benda til þess, þó of snemmt sé að fullyrða um það.

Í samtali við Vísi segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, að mælingar Veðurstofunnar á ákveðnum hreyfingum bendi til þess að mögulega hafi dregið úr virkni eldgossins.

„Við erum að skoða óróamælingar hjá okkur frá Fagradalsfjalli, svo líka af jarðskjálftamælistöðvum þarna í grenndinni. Við sjáum að óróinn dettur niður í nótt,“ segir Einar. Hann bendir þó á að mögulega kunni veður á svæðinu að spila þar inn í.

„Að það dragist svona saman óróinn á þessum mælingum er líklega áhrif af vindi, að miklu leyti. Það helst þó ekki alveg í hendur við vindmælingar frá í gær, þannig við ætlum að skoða betur hvort við teljum að það hafi dregið úr virkni,“ segir Einar.

Hann segir erfitt að meta sjónrænt hvort dregið hafi úr virkni gossins. Líklegast sé hún þó í sama horfi og verið hefur síðustu daga.

Ekkert bendi til að gosið sé að klárast

Einar segir ekkert benda sérstaklega til þess að gosið sé að klárast. Óróamælingar á annarri tíðni en þeirri sem dró úr í nótt sé stöðug á því bili sem verið hefur frá því gosið hófst.

„Það er ekkert sem bendir til þess að gosið sé að klárast. Við erum enn að greina óróa sem hefur greinst frá því gosið hófst. Mjög lítið merki sem við greinum stöðugt á svæðinu. Sá órói er á lægri tíðnisviðum, hann hefur oft verið fremur merki um eldgosavirkni,“ segir Einar.

Hér að neðan má sjá beina útsendingu RÚV frá gosstöðvunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.