Fótbolti

„Ís­lendingurinn kom sekúndu­broti á undan mér“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Íslenska liðið fær vítaspyrnuna í dag.
Íslenska liðið fær vítaspyrnuna í dag. Chris Ricco/Getty

Oliver Christensen, markvörður danska U21-árs landsliðsins, var ánægður með að hafa varið vítaspyrnuna frá Sveini Aroni Guðjohnsen er liðin mættust í Ungverjalandi í dag.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Ísland gullið tækifæri til að minnka muninn í 2-1, eftir að Danir höfðu skorað tvö mörk snemma leiks, en Oliver sá við Sveini.

„Það kom langt innkast og strákarnir sögðu að það hefði verið brotið á Victor Nelsson sem stóð fremstur í svæðisvörninni,“ sagði markvörðurinn í samtali við DR1.

„En svo skoppaði boltinn og ég varð að fara út en Íslendingurinn kom sekúndubroti á undan mér og ég fór í höfuðið á honum svo þannig er það bara.“

„Það er alltaf gott þegar maður brýtur af sér að vita af möguleikanum að maður getur bjargað sér og það gerði ég í dag svo það var fínt,“ bætti markvörðurin við.

Hinn 22 ára gamli Oliver hefur spilað tólf leiki fyrir danska U21-árs landsliðið síðan hann spilaði sinn fyrsta leik árið 2019.

Danir eru með sex stig eftir fyrstu tvo leikina í riðlinum en Íslendingar eru án stiga. Danir mæta Rússum á miðvikudag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.