Innlent

Fjarlækningar á Suðurlandi reynast vel

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fjarlækningar eru alltaf stundaðar meira og meira hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Fjarlækningar eru alltaf stundaðar meira og meira hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Vísir/Samsett

„Fjarlækningar eru framtíðin“, segir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands en stofnunin er að færa sig jafnt og þétt meira út í slíkar lækningar. Nýjasta dæmið er augnlækniþjónusta í Vestmannaeyjum með fjarlækningum.

Starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands nær yfir svæðið allt frá Þorlákshöfn austur að Höfn í Hornafirði þar sem heilsugæslustöðvar eru á flestum þéttbýlisstöðum. Íbúafjöldi stofnunarinnar er um 30 þúsund, þar af eru 10 þúsund á Selfossi. Fjarlækningar eru alltaf að verða meira og meira áberandi í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Díana Óskarsdóttir er forstjóri stofnunarinnar.

„Þetta snýst í raun um að geta veitt sérfræðiþjónustu án þess að hafa læknana á staðnum. Þannig að við fáum þjónustuna til einstaklinganna og þeir þurfa ekki að fara langar leiðir til að sækja þjónustuna. Þetta virkar þannig að við erum með ákveðin tæki, sem við köllum Agnesi og í þeim er hægt að gera hinar ýmsu mælingar og taka myndir og senda yfir. Það er læknir á hinum endanum, sem getur þá séð það sem við erum að skoða og getur þá veitt ráðleggingar til baka. Þannig að þetta sparar ferðalögin, fyrir lækninn að koma á staðinn og fyrir einstaklinginn að fara til lækna,“ segir Díana.

Díana segir að nú sé verið að innleiða fjarlækningar víða um Suðurland en stofnunin á fimm Agnesar tæki, sem hafa reynst mjög vel. Síðan er verið að fara af stað með verkefni í Vestmannaeyjum, sem eru fjaraugnlækningar.

„Og þar eru við búin að fá gríðarlega flotta aðkomu frá Lionsmönnum og fleirum, sem hafa styrkt okkur um 25 milljónir króna til þess að kaupa þessi tæki til að veita þessa þjónustu. Læknarnir koma ekki á staðinn heldur verða þeir á hinum endanum og fá myndir sendar til sín og geta þá gefið ráðleggingar.“

Díana segir að fjarlækningar séu framtíðin.

„Já það myndi ég segja, það eru gríðarleg tækifæri á því sviði.“

Athyglisvert verkefni er að fara af stað í Vestmannaeyjum á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×