Innlent

Veður­fræðingur og náttúru­vá­r­sér­fræðingur beina því til fólks að fara ekki að gosinu í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gosið út í ljósaskiptunum.
Gosið út í ljósaskiptunum. Vísir/Vilhelm

Hraunflæði úr gosinu í Geldingadölum hefur verið stöðugt í nótt. „Við sáum í gær að það hefur lokast af þarna svæði við gíginn sem hafði áður verði hægt að ganga að og hraunið rann aðeins meira í áttina að stikuðu gönguleiðinni. Annars hefur rennslið bara verið tiltölulega jafnt,“ segir Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur um stöðuna á gosinu.

Hann sagði skjálftavirkni hafa verið mjög svipaða síðustu daga; engin tíðindi þar.

Einar og Haraldur Eiríksson, vaktaveðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, eru sammála um að það sé ekkert vit í því fyrir fólk að fara að gosstöðvunum þegar líður á daginn.

„Fólk ætti fyrst og fremst að hugsa um veðrið núna og klæða sig vel. Og helst að sleppa því að fara í dag,“ segir Einar. 

„Það er ekkert að veðrinu þarna núna en það er vaxandi austanátt og veðrið að versna og verður orðið allhvasst eftir hádegi,“ segir Haraldur.

Veðurstofa spáir hvassviðri víðast hvar á landinu.

Seint í dag er spáð stormi á gosstöðvunum.

„Menn verða að huga að veðri og reyna að vera ekki með vindinn í fangið,“ segir Einar og vísar til hættunnar vegna gasmengunar. Fleiri leiðir hafi verið stikaðar og menn verði að vanda sig við að velja þá leið þar sem gasmengunin er minni.

„Og þegar fólk er komið á svæðið; ekki setjast beint með gasið í fangið heldur reyna að finna stað þar sem er minni gasmengun og þú ert með vindinn í bakið.“

Einar ítrekar að þegar líður á daginn bæti verulega í vindinn en á morgun sé spáð breytilegri átt.

Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir svæðið í dag og í spá veðurvaktar um gasdreifingu segir að ekkert útivistarveður verði við gosstöðvarnar síðdegis eða í kvöld. Mengun gæti borist til Grindavíkur, sem væri óholl fyrir viðkvæma.

Gasdreifingarspáin verður uppfærð fyrir hádegi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.