Innlent

Starfsfólk hjúkrunarheimila hálfbólusett: Herða reglur til að standa vörð um þjónustuna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ströngum reglum er ætlað að mynda skjaldborg utan um starfsfólk og þar með þjónustuna við íbúa.
Ströngum reglum er ætlað að mynda skjaldborg utan um starfsfólk og þar með þjónustuna við íbúa.

Ástæða þess að reglur hafa verið hertar á hjúkrunar- og dvalarheimilum, meðal annars hvað varðar heimsóknir, er sú að starfsmenn hafa almennt ekki fengið nema einn bóluefnaskammt.

Íbúar eru fullbólusettir en með því að takmarka komur inn á hjúkrunarheimilin er verið að verja starfsfólkið til að tryggja þjónustuna við íbúa. Þetta segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu.

Þegar ljóst var að SARS-CoV-2 var aftur farin að dreifa úr sér í samfélaginu tilkynntu mörg hjúkrunar- og dvalarheimili að gripið yrði til aðgerða á borð við að banna heimsóknir yngri en 18 ára, takmarka fjölda gesta á dag og takmarka komur annarra utanaðkomandi í hús.

María Fjóla segist gera ráð fyrir að starfsfólk verði orðið fullbólusett í lok maí.

Þannig hefur sums staðar matsölum verið lokað og félagsstarfi.

„Þarna erum við að hafa áhyggjur af því að starfsfólkið okkar er hálfbólusett,“ útskýrir María. „Ef það kemur smitaður einstaklingur inn þá missum við þann hóp sem hann komst í snertingu við í sóttkví. Og að missa út hóp starfsfólks getur leitt til þess að við getum ekki veitt þjónustu.“

Hún gerir ráð fyrir að starfsfólk heimilanna verði orðið fullbólusett í lok maí.

María segir íbúa almennt örugga og þeir séu frjálsir ferða sinna. Hins vegar sé sá möguleiki fyrir hendi að þeir geti borið smit aftur inn, þrátt fyrir að vera bólusettir, og því séu allir beðnir um að virða sóttvarnareglur og sinna persónulegum smitvörnum.

Hún segir vissulega gæta ákveðinnar sóttþreytu en segist vonast til þess að með samstilltu átaki takist að vinna fljótt á því smiti sem nú er komið upp.

„Það skiptir miklu að við fáum að opna allt aftur og fáum að vera til,“ segir hún.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.