Innlent

AstraZeneca „gott, virkt og öruggt“ fyrir 70 ára og eldri

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eftir tvo skammta er virkni bóluefnisins frá AstraZeneca um 85 prósent en um 90 prósent með Pfizer og Moderna.
Eftir tvo skammta er virkni bóluefnisins frá AstraZeneca um 85 prósent en um 90 prósent með Pfizer og Moderna. AP/Matthias Schrader

Það verður engin meiriháttar röskun á bólusetningaráætlun yfirvalda vegna AstraZeneca, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Eina breytingin er sú að heilbrigðisstarfsmenn sem eru yngri en 65 eða 70 ára fá önnur bóluefni.

Þórólfur sagði ákvörðun heilbrigðisyfirvalda um að hefja aftur bólusetningar með AstraZeneca byggði á gögnum frá Bretlandi, Skotlandi og Bandaríkjunum, sem gæfu það til kynna að bóluefnið væri alveg jafn virkt í eldri aldurshópum og hjá yngra fólki.

Eftir tvo skammta væri virknin um 85 prósent en um 90 prósent með Pfizer og Moderna.

Varðandi aukaverknar hefðu rannsóknir á Norðurlöndunum og í Bretlandi leitt í ljós að blóðsega- og blæðingavandamál kæmu nær engöngu upp hjá einstaklingum yngri en 60 ára og að Svíar og Finnar hefðu þegar hafið bólusetningar á ný hjá 65 ára og eldri.

Hér á landi yrði fyrst um sinn miðað við 70 ár og eldri og sagðist hann hvetja alla sem fengju boð í bólusetningu til að mæta og láta það ekki vera fyrirstöðu að um væri að ræða bóluefnið frá AstraZeneca. 

Sagði hann bóluefnið gott og virkt og öruggt fyrir þennan aldurshóp.

Hann sagði stöðuna á faraldrinum vonbrigði en að hún ætti ekki að koma á óvart, ef horft væri til ástandsins erlendis og hér á landamærunum. Hann sagðist binda vonir við að harðar aðgerðir myndu skila skjótum árangri.

Samstaða þjóðarinnar væri og hefði alltaf verið lykilþáttur og hvatt hann fólk sérstaklega til að sinna persónubundnum sóttvörnum og fara í skimun við minnstu einkenni. Einnig að halda sig til hlés þar til niðurstaða lægi fyrir.

Að gera það ekki gæti valdið útbreiðslu veirunnar og miklum skaða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×