Innlent

Allir nemendur Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla í úrvinnslusóttkví

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Laugalækjarskóli. Skólinn er fyrir 7.-10. bekk í Laugardalnum í Reykjavík en Laugarnesskóli þjónustar 1.-6. bekk.
Laugalækjarskóli. Skólinn er fyrir 7.-10. bekk í Laugardalnum í Reykjavík en Laugarnesskóli þjónustar 1.-6. bekk. Reykjavíkurborg

Allir nemendur í Laugarnesskóla og Laugalækjaskóla í Reykjavík fara í úrvinnslusóttkví á morgun, miðvikudaginn 24. mars. Gripið er til þessa ráðstafana vegna fjölgunar kórónuveirusmita meðal nemenda í Laugarnesskóla. Allur árgangur 6. bekkjar í Laugarnesskóla, sem og 5. flokkur karla í knattspyrnu hjá Þrótti, er jafnframt í sóttkví.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Forráðamönnum nemenda í skólunum tveimur var einnig tilkynnt um ráðstöfunina í tölvupósti í kvöld. 

Allir nemendur í 1.-6. bekk í Laugarnesskóla og 7.-10. bekk í Laugalækjarskóla verða því að vera heima í úrvinnslusóttkví þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir. Börn í úrvinnslusóttkví þurfa að huga vel að persónulegum smitvörnum og halda sig frá öðrum á heimilinu.

Rakning smitanna sem greindust í dag heldur áfram fram á nótt og á morgun, að því er segir í tilkynningu almannavarna. Á morgun kemur í ljós hversu margir þeirra sem eru í úrvinnslusóttkví halda áfram í sóttkví.

Nemendur í 6. bekk Laugarnesskóla og iðkendur í 5. flokki karla í knattspyrnu hjá Þrótti eru í staðfestri sóttkví fram á laugardag. Allar íþróttaæfingar barna í Þrótti á grunnskólaaldri falla niður á morgun, miðvikudaginn 24 mars. 

Frístundastarf í Laugarseli og Dalheimum, félagsmiðstöðinni Laugó sem og starf skólahljómsveitar mun einnig liggja niðri meðan á úrvinnslusóttkví stendur, að því er segir í tilkynningu skólanna til nemenda. 

Endanlegur fjöldi smitaðra ekki kominn á hreint

Vísir greindi frá því í kvöld að þrír nemendur í 6. bekk í Laugarnesskóla hefðu greinst með kórónuveiruna í dag til viðbótar við nemanda og kennara í skólanum sem greindust áður. Fleiri nemendur greindust nú í kvöld.

Björn Gunnlaugsson aðstoðarskólastjóri Laugarnesskóla getur ekki staðfest hversu margir nemendur í skólanum séu smitaðir þar sem enn er beðið niðurstöðu úr sýnatöku. Fjöldinn skýrist í fyrramálið. Smitin séu enn bundin við fjóra af fimm bekkjum 6. bekkjar en til öryggis hafi verið ákveðið að árgangurinn færi allur í sóttkví.

Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri hjá almannavörnum getur heldur ekki staðfest hversu margir séu smitaðir í tengslum við Laugarnesskóla. Enginn sé þó smitaður í Laugalækjarskóla en nemendur hafi verið settir í úrvinnslusóttkví vegna fjölskyldutengsla. 

Fréttin verður uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.