Innlent

Forystusauður í stífum æfingabúðum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jón Þormar á Kafteini og forystusauðurinn í taumnum tilbúin að hlaupa af stað þegar skipun þess efnis kemur
Jón Þormar á Kafteini og forystusauðurinn í taumnum tilbúin að hlaupa af stað þegar skipun þess efnis kemur Magnús Hlynur Hreiðarsson

Stífar æfingar standa yfir þessa dagana við að venja forystusauð að hlaupa í taumi með hesti þegar bóndi á bæ í grennd við Laugarvatn fer í sinn daglega reiðtúr á hestinum Kafteini með sauðinn í eftirdragi.

Það er á bænum Böðmóðsstöðum, sem æfingar knapans, hestsins og sauðsins fara fram nánast daglega.

Jón Þormar Pálsson, bóndi á Böðmóðsstöðum í Bláskógabyggð hefur séð um að þjálfa forystusauðinn með dyggri aðstoð konu sinnar og sona. Sauðurinn, sem er ekki nema veturgamall finnst fátt skemmtilegra en að hlaupa og þá alveg eins í taumi eða bara frjáls úti á túni.

„Hann hefur hlaupið alveg frá fæðingu. Hann er mjög léttur á fæti og honum finnst þetta mjög skemmtilegt. Kafteinn er líka snillingur, hann gerir allt fyrir okkur, sama hvað er,“ segir Hulda Karólína Harðardóttir, bóndi á Böðmóðsstöðum.

Vinafólk Jóns Þormars og Huldu á Snorrastöðum í Laugardal voru á leiðinni með forystusauðinn í sláturhús þegar Jón komast að því og fékk þau frekar til að gefa sér sauðinn, hann gæti örugglega komið að gagni á Böðmóðsstöðum.

„Svo er náttúrulega verið að kenna honum að haga sér eins og forystusauður, fara heim, teymast á hesti og teymast í hendi líka og hlýða sínum húsbónda,“ bætir Hulda við.

Og svo eruð þið að venja hornin á sauðnum eða hvað?

„Já, við viljum ekki að þau fari í kinnarnar á honum og jafnvel augun. Þá er settur vír en það þarf mikla tæknikunnáttu til að gera þetta og þau eru stundum vanin mjög flott, við sjáum hvað verður úr þessu.“

Hulda Karólína og Jón Þormar eru bændur á Böðmóðsstöðum þar sem þau eru með kýr, sauðfé, hesta og geitur.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×