Innlent

Logi segir ríkisstjórnina skauta fram hjá atvinnuleysinu

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður Samfylkingarinnar sakar ríkisstjórnina um að leysa eigi aukið atvinnuleysi á næstu árum með niðurskurði og skattahækkunum.
Formaður Samfylkingarinnar sakar ríkisstjórnina um að leysa eigi aukið atvinnuleysi á næstu árum með niðurskurði og skattahækkunum. Vísir/Vilhelm

Formaður Samfylkingarinnar segir ríkisstjórnina skauta framhjá atvinnuleysinu í fjármálaáætlun sem fjármálaráðherra kynnti í gær. Atvinnuleysið væri aðal úrlausnarefnið eftir kórónuveirufaraldurinn og hefði áhrif flestar þjóðhagsstærðir.

Í kynningu á fjármálaáætlun í gær sagði fjármálaráðherra aðgerðir stjórnvalda að undanförnu hafa skilað miklum árangi. Ráðstöfunartekjur heimilanna hefðu aukist í fyrra og samdráttur í efnahagslífinu verið mun minni en reiknað hefði verið með.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagði á Alþingi í dag að samkvæmt þessari fjármálaáætlun yrðu 35 prósent fleiri atvinnulausir á þessu ári en gert hefði verið ráð fyrir í áætlun fyrir jól. Það væru rúmlega fimm þúsund manns.

Logi Einarsson segir að nú séu 35 prósent fleiri án atvinnu en áætlanir fyrir jól hefðu gert ráð fyrir.Vísir/Vilhelm

„Í kynningunni skautar ríkisstjórnin svo algerlega framhjá því að það er gert ráð fyrir fimm prósenta atvinnuleysi í lok tímabilsins 2023. Það er fimmtíu milljarða kostnaður fyrir ríkissjóð á hverju ári. Sá kostnaður mun haldast um ókomna tíð ef ekki verður ráðist að rót vandans sem er fjölda atvinnuleysið,“ sagði Logi.

Ef svartsýnustu spár gengju eftir ætti hiins vegar að grípa til „afkomubætandi“ ráðstafana sem þýddi niðurskurð og eða skattahækkanir.

„Það er ekkert sérlega geðsleg pólitík sýn sem felst í því að sætta sig við áframhaldandi atvinnuleysi en hóta svo með ótilgreindum niðurskurðartillögum í lok tímabilsins til þess eins að ná einhverju sérstöku óska skuldahlutfalli,“ segir Logi.

Forsætisráðherra segir allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa gengið út á að tryggja afkomu fólks og vinna gegn langtíma atvinnuleysi.Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði samhengið skipta máli þar sem ríkisstjórnin hefði beitt sér til að draga úr efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins. Mesta hættan stafaði af langtíma atvinnuleysi.

„Þess vegna snúast aðgerðir ríkisstjórnarinnar nákvæmlega um þetta. Að tryggja ráðningarsamband fólks. Að tryggja afkomu fólks. Tryggja það að við sköpum fleiri störf. Við munum sjá núna aukningu í fjárfestingum ríkisins. Það hefur töluvert verið rætt um opinbera fjárfestingu, hlut ríkis og sveitarfélaga í henni þar sem við erum líka að skapa störf,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×