Innlent

Auðveldara fyrir kvikuna að ferðast lárétt heldur en lóðrétt enn sem komið er

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
visir-img
Vísir/HÞ

Skýr merki eru á jarðskorpunni um jarðskjálftann við Grindavík á sunnudag. Jarðeðlisfræðingur telur kviku vera á þónokkurri hreyfingu í kvikuganginum og færist nú aftur nær Keili.

Jarðhræringar á Reykjanesskaga hafa tekið breytingum undanfarinn sólarhring. Stórum skjálftum hefur fækkað og eru þeir minni en áður. Virkni er samt sem áður mikil enda fleiri en fjörutíu þúsund skjálftar mælst frá því hrinan hófst fyrir tuttugu dögum.

Íslenskar orkurannsóknir hafa fylgst vel með þróun jarðhræringanna og segir jarðeðlifræðingur að skjálftavirkni hafi verið að færast til við Fagradalsfjall aftur í átt að Keili.

„Það mundi segja mér að kemst ekki lengra til suðvesturs og er að reyna að finna sér leið til norðausturs,“ segir Þorbjörg Ágústsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Íslensku orkurannsóknum.

Frá þeim gögnum sem rýnt hefur verið í síðustu daga segir Þorbjörg að kvikugangur sé í dag um átta kílómetra langur, fjórir kílómetrar á hæð og líklega ekki nema metri á breidd. Talið er að skjálftavirknin sé undir kvikuganginum.

Þorbjörg Ágústsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum.Vísir/Egill

„Ef þið hugsið ykkur að kvikan hegði sér eins og vatn og vatn flæðir bara þangað þar sem það er auðveldast. Þó að þetta sé á kílómetra til fimm kílómetra dýpi þá er sama lögmál. Núna er er að á leið til norðausturs en það er ekki útilokað að það fari aftur til baka,“ segir Þorbjörg.

Ekki er hægt að segja til um hvort kvikan nái til yfirborðs eða hvort það verði eldgos yfir höfuð.

„Enn sem komið er, er einfaldara og auðveldara fyrir kvikuna að ferðast lárétt heldur en lóðrétt,“ segir Þorbjörg.

Þorbjörg útskýrir kvikuganginn við Fagradalsfjall.Vísir/Egill

Með tilheyrandi hreyfingum á jarðskorpunni. Staðsetning kvikugangsins hefur komið sérfræðingum á óvart miðað við önnur svæði á Reykjanesskaga.

„Það eru mjög fáar gossprungur, þið sjáið lítið af rauðu strikum. Það eru miklu fleiri á Krýsuvíkursvæðinu til dæmis. Eins er heldur engin ummyndun á yfirborði sem segir okkur til um jarðhita. Þannig að þetta virðist vera frekar kalt svæði miðað við Reykjanesið, Svartsengi og Krýsuvík,“ segir Þorbjörg.


Tengdar fréttir

Hætta á ferðum víðar en í fjalllendi

Yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum hvetur göngufólk til að gæta varúðar í fjalllendi á Reykjanesskaga en grjóthrun hefur orðið í kjölfar öflugra jarðskjálfta á Reykjanesskaga undanfarna daga.

Jarðhræringar á Reykjanesskaga: Skýr merki um kvikuflæði

Þrátt fyrir minni og færri jarðskjálfta á Reykjanesskaga frá miðnætti eru skýr merki um kvikuflæði við Fagradalsfjall. Þetta sýna nýjar gervihnattamyndir af svæðinu. Jarðeðlisfræðingur segir stund milli stríða í jarðskjálftahrinunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.