Innlent

Stefán Þorleifsson er látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stefán Þorleifsson var mjög áhugasamur kylfingur og enn að eftir að hann varð hundrað ára.
Stefán Þorleifsson var mjög áhugasamur kylfingur og enn að eftir að hann varð hundrað ára. Aðsend

Stefán Þorleifsson fyrrverandi íþróttakennari og fyrrverandi framkvæmdastjóri Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað, lést þann 14.mars á 105. aldursári. Stefán var elsti karlmaður landsins.

Stefán fæddist í Naustahvammi á Norðfirði 18. ágúst 1916. Hann var 4. í röð fjórtán barna Maríu Aradóttur og Þorleifs Ásmundssonar. Stefán kvæntist Guðrúnu Sigurjónsdóttur árið 1945 (f.1925 d.2013) og eignuðust þau 4 börn.

Stefán lauk íþróttakennaraprófi frá Laugavatni árið 1940 og hóf strax að námi loknu að þjálfa og kenna íþróttir í heimabyggð.

Fálkaorðuhafi

Stefán var drifkraftur í fjölmörgum framfaramálum í Neskaupstað m.a. byggingu sundlaugarinnar sem hann síðan veitti forstöðu til margra ára. Á 100 ára afmæli Stefáns var sundlaugin nefnd Stefánslaug honum til heiðurs.

Hann var varaformaður byggingarnefndar Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað og síðan forstöðumaður þess í 30 ár.

Stefán hlaut í gegnum tíðina fjölda viðurkenninga fyrir störf sín að íþrótta- og félagsmálum og var m.a. sæmdur fálkaorðunni árið 1983.

Leti það hættulegasta sem til er

Langlífi Stefáns og virkni í íþróttum varð að fréttaefni oftar en einu sinni. Hann sagði í viðtali við Mbl árið 2019 að hann þekkti marga sem hefðu drepið sig á reykingum, og sjálfur hefði hann aldrei reykt.

„Síðan hef ég aðeins einu sinni orðið drukkinn. Það gerðist þegar ég var tvítugur og lofaði að gera það aldrei aftur. Ég hef staðið við það,“ sagði Stefán. Sömuleiðis skipti máli góður maki, góð börn og samfélagið sem maður býr í.

„Það skiptir máli að búa í samfélagi þar sem enginn er skilinn út undan, gætt að því hvernig fólki líður og að það sé heilbrigt.“

Hann lagði líka mikla áherslu á að hreyfa sig alla tíð og hafði á orði að leti væri það hættulegasta sem til væri.

Tvisvar holu í höggi

Fjallað var um virkni Stefáns í golfinu í þáttunum Golfarinn á Stöð 2 fyrir tveimur árum. 

„Alltaf þegar það er gott veður fer ég út á golfvöll og spila hring. Þetta er ekki erfið íþrótt, þannig, ef maður nennir að labba. En ég er tiltölulega ólatur við að labba,“ sagði Stefán sem var einn af stofnendum Golfklúbbs Norðfjarðar. 

„Meðan konan mín var á lífi fórum við alltaf saman í golf. Það var yndislegt. Sonur okkar bjó á Mallorca og við fórum oft í heimsókn til hans og lékum golf.“

Hann mælti sérstaklega með golfinu fyrir fólk sem væri komið á efri ár.

„Þetta er alveg sérlega góð íþrótt fyrir fólk á öllum aldri, ekki síst þeir þá sem eru farnir að eldast, til að halda sér við. Þetta er talsverð hreyfing. Gangan er alltaf einföld og góð íþrótt út af fyrir sig og þessar hreyfingar í golfinu eru ágætar. Ef maður ætlar að iðka golf þarf maður að halda líkamanum við í öðrum íþróttum,“ sagði Stefán.

„Það er engin ástæða til að hætta að spila golf ef maður stendur uppréttur og getur gengið og hreyft sig,“ sagði Stefán sem fór að minnsta kosti tvisvar holu í höggi á ævi sinni.

Bólusettur í upphafi árs

Stefán var elsti karlmaður á Íslandi þegar hann lést. Hann var bólusettur fyrir kórónuveirunni í Neskaupstað um áramótin. Hann ræddi sprautuna við Vísi og sagði hana ekki hafa verið neitt mál. 

„Ég fann ekkert fyrir þessu. Sumir eru hræddir við að láta sprauta sig en þetta er bara smá tilfinning og búið. En sumir geta orðið veikir en ég varð ekkert var við neina breytingu,“ sagði Stefán. Hann var þá nýfluttur á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Neskaupstað og undi þar hag sínum vel.

Kórónuveirufaraldurinn var ekki fyrsti heimsfaraldurinn sem Stefán upplifði. Hann fæddist árið 1916 en Spænska veikin barst fyrst til landsins haustið 1918. Stefán minntist þess að veikin hafi borist austur á heimahagana.

„Það var algjör faraldveiki. Ég man ekki hvað dóu margir Íslendingar úr spænsku veikinni en það voru mjög margir, geysilegt mannfall. Sérstaklega í Reykjavík. Það var eini þéttbýlisstaðurinn þá á Íslandi. Það urðu einhverjir veikir heima á Norðfirði líka en ég man ekki hvort það var þá sem ég var nokkuð lengi veikur.“


Tengdar fréttir

„Bara smá tilfinning og búið“

Stefán Þorleifsson, 104 ára og elsti núlifandi karlmaður á Íslandi, var bólusettur fyrir kórónuveirunni í Neskaupstað fyrr í vikunni. Hann segir sprautuna ekki hafa verið neitt mál og hefur ekki fundið fyrir eftirköstum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.