Innlent

Snjóbíll björgunarsveitar fór niður um ís á hálendinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Snjóbíllinn hálfur á kafi eftir að hann pompaði niður um ís á leysingarvatni í lægð við Hnausapoll.
Snjóbíllinn hálfur á kafi eftir að hann pompaði niður um ís á leysingarvatni í lægð við Hnausapoll. Landsbjörg

Engan sakaði þegar snjóbíll frá Flugbjörgunarsveitinni Reykjavík sem var æfingarferð fór niður um ís nálægt Landmannalaugum snemma í morgun. Unnið er að því að koma bílnum aftur upp á fast land. Varhugarverðar aðstæður eru nú á hálendingu vegna hlákutíðar undanfarið.

Bíllinn festist í lægð við Hnausapoll að Fjallabaki, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Hópurinn var við æfingar á hálendinu en hafði einnig sinnt tveimur útköllum vegna jeppafólks í vanda í nótt.

Félagar úr öðrum björgunarsveitum eru nú á staðnum með tvo aðra snjóbíla og önnur tæki. Freista þeir þess nú að skera rásir í ísinn og draga snjóbílinn upp úr pyttinum. Davíð Már segir að svo virðist sem að bíllinn hafi farið niður um klaka á leysingarvatni. Ljóst sé að einhverjar skemmdir hafi orðið á bílnum en umfang þeirra verði ekki ljóst fyrr en hann verður dreginn upp og fluttur í bæinn.

Óvenjuhlýtt hefur verið hálendinu undanfarið og hláka er því fyrr á ferðinni en vanalega á vorin. Davíð Már hvetur fólk sem er á ferðinni á hálendinu að fara varlega þar sem margar hættur geti leynst þar.

Í hlákunni sé hætta á að krapapyttir myndist í lægðum í landslaginu. Þegar snjór þar bráðnar safnast fyrir vatn og þunnur ís yfir sem gefur sig auðveldlega.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×