Innlent

Tæpur helmingur telur eins öruggt eða öruggara að fljúga í MAX-vélum

Atli Ísleifsson skrifar
Icelandair tók á dögunum MAX-vélar sínar í notkun eftir um tveggja ára kyrrsetningu.
Icelandair tók á dögunum MAX-vélar sínar í notkun eftir um tveggja ára kyrrsetningu. Vísir/Vilhelm

Nær helmingur Íslendinga, eða 45 prósent, telja það eins öruggt eða öruggara að ferðast með Boeing 737 MAX flugvélum samanborið við aðrar farþegaþotur. 22 prósent telja það óöruggara, en þriðjungur aðspurðra kvaðst ekki hafa mótað sér afstöðu.

Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar MMR sem gerð var í kringum áramótin. Icelandair tóku á dögunum MAX-vélar sínar í notkun eftir um tveggja ára kyrrsetningu.

Á heimasíðu MMR segir að karlar (54 prósent) hafi reynst líklegri en konur (35 prósent) til að segjast telja það eins öruggt eða öruggara að ferðast með Boeing 737 MAX vélunum heldur en öðrum farþegaþotum.

„Þeir svarendur sem kváðust að jafnaði hafa ferðast erlendis fimm sinnum á ári eða oftar áður en kórónuveirufaraldurinn skall á reyndust líklegastir til að segjast telja ferðir með Boeing 737 MAX flugvélunum jafn öruggar eða öruggari heldur en með öðrum farþegaþotum (56%). Traust til Boeing 737 MAX vélanna minnkaði samhliða fækkun á fjölda ferða erlendis og mældist lægst meðal þeirra svarenda sem kváðust að jafnaði ekki hafa ferðast erlendis á hverju ári (34%).

Stuðningsfólk Miðflokksins (56%), Sjálfstæðisflokksins (53%) og Framsóknar (52%) reyndist líklegast til að segjast telja ferðalög með Boeing 737 MAX flugvélum eins örugg eða öruggari heldur en ferðalög með öðrum farþegaþotum en stuðningsfólk Pírata (35%), Samfylkingarinnar (41%) og Flokks fólksins (44%) ólíklegast,“ segir í tilkynningunni.

Könnunin var framkvæmd dagana 30. desember 2020 til 11. janúar 2021 og var heildarfjöldi svarenda 2.002 einstaklingar, 18 ára og eldri.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×