Erlent

Annar for­sætis­ráð­herra landsins til að falla frá á innan við ári

Atli Ísleifsson skrifar
Hamed Bakayoko (til vinstri) varð 56 ára gamall.
Hamed Bakayoko (til vinstri) varð 56 ára gamall. EPA/LEGNAN KOULA

Hamed Bakayoko, forsætisráðherra Fílabeinsstrandarinnar, er látinn, 56 ára að aldri. Hann lést á sjúkrahúsi í Þýskalandi í gær eftir baráttu við krabbamein.

Bakayoko var skipaður forsætisráðherra í júlí á síðasta ári, í kjölfar óvænts dauðsfalls forverans Amadou Gon Coulibaly.

Alassane Ouattara, forseti Fílabeinsstrandarinnar, hefur lýst Bakayoko sem merkum stjórnvitringi og mikilli fyrirmynd fyrir ungt fólk í landinu.

Bakayoko var fluttur til Frakklands í febrúar til að gangast undir læknarannsóknir, en var síðar fluttur á sjúkrahús í Þýskalandi eftir að heilsu hans hrakaði.

Bakayoko starfaði á árum áður sem framkvæmdastjóri í fjölmiðlum áður en hann sneri sér að stjórnmálum. Hann gegndi mikilvægu hlutverki í sáttamiðlun í borgarstríðinu í landinu í upphafi aldarinnar.

Auk þess að gegna embætti forsætisráðherra Fílabeinsstrandarinnar gegndi hann einnig embætti varnarmálaráðherra.

Forsetinn Ouattara hefur nú skipað Patrick Achi sem forsætisráðherra til bráðabirgða, en Achi hefur verið starfandi forsætisráðherra síðan í mars í fjarveru Bakayoko. Þá hefur Ouattara skipað yngri bróður sinn, Tene Birahima Ouattara, sem varnarmálaráðherra til bráðabirgða.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherrann lést eftir ríkisstjórnarfund

Amadou Gon Coulibaly, forsætisráðherra Fílabeinsstrandarinnar, lést eftir að hann veiktist á miðjum ríkisstjórnarfundi í dag. Coulibaly var nýkominn heim úr meðferð vegna hjartveiki í Frakklandi en hann átti að vera forsetaframbjóðandi stjórnarflokksins í forsetakosningum í haust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×