Innlent

Fá ekki að setja upp „zip-line“ við Perluna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rekstrarfélag Perlunni vill setja upp svokallað zip-line frá Perlunni og niður í Öskjuhlíð.
Rekstrarfélag Perlunni vill setja upp svokallað zip-line frá Perlunni og niður í Öskjuhlíð. Vísir/Vilhelm

Skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar hefur hafnað umsókn Perlu norðursins, rekstrarfélags Perlunnar, um að setja upp svokallaða zip-line, nokkurs konar risaaparólu, sem átti ná um 235 metra ofan af Perlunni og niður í Öskjuhlíð.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag þar sem vísað er í umsögn skipulagsfulltrúans. Samkvæmt fréttinni segir í umsögninni að deiliskuplag borgarinnar geri ekki ráð fyrir slíkri línu eða rólu. Þá sé það heldur ekki vilji borgarinnar að skipulagi verði breytt svo hægt sé að setja slíkt upp.

Um sé að ræða áhugaverða hugmynd um notkun á verðumætu útivistarsvæði í miðri borginni. Óskað sé eftir því að nýta borgarland til að setja upp gáma og tengda aðstöðu fyrir línuna.

Í umsögninni segir að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé ekki gert ráð fyrir afþreyingu eða þjónustu á þessu svæði.

Þá standi til að leggja svokallaða Perlufesti í nágrenni svæðisins en þann stíg eigi eftir að hanna í samræmi við vinningstillögu í samkeppni sem haldin var fyrir nokkrum árum.

„Jafnframt má deila um hvort umrædd starfsemi sem sótt er um sé svæðinu almennt til hagsbóta eða auki á notkun þess til útivistar eða afþreyingar með tilliti til sérstöðu svæðisins er varðar náttúru og útivistarskóg í þéttbýli,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúans samkvæmt frétt Fréttablaðsins.

Að því er fram kemur í frétt blaðsins bendir skipulagsfulltrúinn jafnframt á að meginstefnan í skipulagi Öskjuhlíðar sé sú að svæðið þjóni áfram hlutverki sínu sem einn helsti útivistarskógurinn sem er innan þéttbýlissvæðis Reykjavíkur. Uppbyggingu innan og í jaðri hans skuli halda í lágmarki.

Umsókn Perlu norðursins var því hafnað eins og áður segir og er félaginu ráðlagt að leita annað með hugmyndina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×