Innlent

Segja dómsmálaráðherra senda konum kaldar kveðjur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Félögin telja Jón Steinar ekki líklegan til að stuðla að réttarbótum til handa konum.
Félögin telja Jón Steinar ekki líklegan til að stuðla að réttarbótum til handa konum.

Kvenréttindafélag Íslands og Stígamót segja Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra senda konum kaldar kveðjur með því að fela Jóni Steinari Gunnlaugssyni að vinna að nauðsynlegum umbótum í réttarkerfinu.

Þetta kemur fram í ályktun frá félögunum.

Þar segir meðal annars að ljóst sé að grípa þurfi til viðamikilla aðgerða og umbóta til að tryggja réttindi þolenda kynferðisbrota og ofbeldis í nánum samböndum í réttarkerfinu. Málsmeðferðartími í kynferðis- og heimilisofbeldismálum sé alltof langur.

Jón Steinar hafi hins vegar haldið því fram í greinaskrifum að íslenskir dómstólar hafi í stórum stíl látið undan kröfum um að slakað verði á sönnunarfærslu í kynferðisbrota- og barnaníðsmálum, að saklausir menn hafi verið ranglega dæmdir og að málsmeðferðin geri fólki mögulegt að „ná sér niðri á öðrum með því að bera fram rangar sakargiftir á hendur þeim“.

„Jón Steinar hefur einnig fullyrt að þolendum kynferðisbrota „myndi líða miklu betur ef þeim tækist að þróa með sér fyrirgefningu“.

Traust þolenda kynbundins ofbeldis til réttarkerfisins er nú þegar laskað vegna þess hvernig mál þeirra hafa verið meðhöndluð. Að fela Jóni Steinari Gunnlaugssyni það starf að vinna að nauðsynlegum umbótum er alls ekki til þess fallið að auka traust þeirra á kerfinu.

Við þurfum betra réttarkerfi en við skipulagningu umbóta er nauðsynlegt að greina núverandi brotalamir út frá sem flestum sjónarhornum. Kvenréttindafélag Íslands og Stígamót leggja áherslu á að mikilvægt sé að þessi vinna sé unnin af fólki sem hefur hagsmuni þolenda ofbeldis að leiðarljósi.

Bætum réttarkerfið svo að réttlætið ráði för,“ segir í ályktuninni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.