Innlent

Þorsteinn Már kærir Jóhannes vegna „fullyrðinga um tilraun til manndráps“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og Jóhannes Stefánsson, uppljóstrari í Samherjamálinu.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og Jóhannes Stefánsson, uppljóstrari í Samherjamálinu.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur lagt fram kæru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á hendur Jóhannesi Stefánssyni uppljóstrara fyrir „rangar sakargiftir vegna fullyrðinga um tilraun til manndráps og frelsissviptingar.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samherja nú síðdegis.

Fram kemur í tilkynningu að lögmaður Samherja hafi lagt fram kæruna í morgun. Tilefni hennar eru sögð „ýmis ummæli sem Jóhannes eða fólk á hans vegum“ hefur látið falla í fjölmiðlum vegna fjársöfnunar. Blásið var til söfnunarinnar til að fjármagna læknisaðstoð sem Jóhannes kveðst þurfa vegna eitrunar.

Samherji vísar til þess í tilkynningu að á vefsíðu söfnunarinnar sé Jóhannes sagður fórnarlamb manndrápstilraunar í Höfðaborg í Suður-Afríku snemma árs 2017. Einnig er vísað til fréttaflutnings af söfnuninni, þar sem Jóhannes segir fyrrverandi vinnuveitanda sinn hafa verið meðvitaðan um hina meintu eitrun auk þess sem hann hafi sagst þurft að þola „tilraunir til mannráns oftar en einu sinni“. 

Samherji túlkar orð Jóhannesar á þann veg að hann gefi í skyn að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, tengist á einhvern hátt hinni meintu eitrun og meintum tilraunum til að nema hann á brott.

„Þannig virðist Jóhannes vera að reyna að koma því til leiðar að forstjóri Samherja verði sakaður um þessi brot, þ.e. tilraun til manndráps og tilraun til frelsissviptingar eða einhvers konar hlutdeild eða tengsl við slík brot. Með þessu kunni Jóhannes að hafa gerst sekur um rangar sakargiftir í garð Þorsteins Más Baldvinssonar. Er þess krafist að lögreglurannsókn verði hafin, tekin verði skýrsla af Jóhannesi og gagna aflað frá suður-afrískum lögregluyfirvöldum. Þá er lögreglunni bent á það gæti talist eðlilegt að rannsaka í leiðinni hvort fjársvik hafi verið framin í tengslum við fjársöfnunina sem áður er getið,“ segir í tilkynningu Samherja.

Óljóst er hvort ummæli og fullyrðingar Jóhannesar sem Samherji vísar til geti fallið undir ákvæði laga um rangar sakargiftir. 

Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður segir í samtali við Vísi að rangar sakargiftir í lagalegum skilningi vísi til þess þegar einhver reyni að fá annan mann sakfelldan eða dæmdan fyrir verknað með rangri kæru eða röngum framburði fyrir dómi eða hjá lögreglu, svo dæmi sé tekið. Samherji vísar í tilkynningu sinni eingöngu til ummæla Jóhannesar í fjölmiðlum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×