Erlent

Réttarhöldin vegna dauða Floyd gætu frestast um fleiri vikur

Kjartan Kjartansson skrifar
Derek Chauvin (t.h.), lögreglumaðurinn sem er ákærður fyrir að drepa George Floyd, í réttarsal í gær.
Derek Chauvin (t.h.), lögreglumaðurinn sem er ákærður fyrir að drepa George Floyd, í réttarsal í gær. Vísir/AP

Krafa saksóknara um að bæta nýjum lið við ákæru á hendur lögreglumanninum sem er ákærður vegna dauða Georges Floyd gæti þýtt að upphaf málflutnings tefjist um fleiri vikur og jafnvel mánuði. Byrjað er að velja kviðdómendur í málinu.

Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumaður í Minneapolis, er ákærður fyrir að hafa valdið dauða Floyd, óvopnaðs blökkumanns, í maí í fyrra. Myndband náðist af viðskiptum Chauvin og Floyd sýndi að lögreglumaðurinn hélt hné sínu á hálsi Floyd í um níu mínútur þrátt fyrir að Floyd grátbæði hann um að sleppa takinu. Þrír aðrir lögreglumenn eru ákærðir fyrir aðild að manndrápi en réttað verður yfir þeim síðar á þessu ári.

Saksóknarar óskuðu eftir því að ákæra Chauvin einnig fyrir manndráp án ásetnings og er nú beðið niðurstöðu áfrýjunardómstóls um hvort þeir fá að gera það. AP-fréttastofan segir að réttarhöldin gætu tafist í fleiri vikur eða mánuði á meðan fjallað er um kröfuna.

Dómarinn í málinu í Hennepin-sýslu ákvað að byrjað yrði að velja kviðdómendur í dag þrátt fyrir að hann gæti þurft að gera hlé á réttarhöldunum bráðlega. Upphaflega átti valið að hefjast í gær.

Dráp lögreglumannanna á Floyd varð kveikjan að mikilli mótmælaöldu gegn lögregluofbeldi og kerfislægri kynþáttahyggju, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur víða um heim, í fyrra. Chauvin er sagður ætla að neita sök í málinu. Málsvörn hans byggist á því að hann hafi ekki valdið dauða Floyd heldur hafi heilsubrestur og ofskammtur af lyfjum orðið honum að aldurtila.


Tengdar fréttir

Réttarhöld yfir lögreglumanninum sem drap George Floyd að hefjast

Taugar eru þandar í Minneapolis í Bandaríkjunum vegna réttarhalda yfir lögreglumanni sem varð George Floyd að bana sem hefjast í þessari viku. Byrjað verður að velja kviðdómendur í málinu í dag en upphaf réttarhaldanna gæti enn frestast.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.