Innlent

Níu konur kæra íslenska ríkið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kvennahreyfingin gerir kröfur um um úrbætur í réttarkerfinu fyrir brotaþola kynbundins ofbeldis.
Kvennahreyfingin gerir kröfur um um úrbætur í réttarkerfinu fyrir brotaþola kynbundins ofbeldis. Vísir/Hanna

Níu íslenskar konur hafa ákveðið að kæra íslenska ríkið til Mannréttindadómsstóls Evrópu vegna þeirrar niðurstöðu að fella niður mál þeirra sem þær höfðu kært til lögreglu en um er að ræða kynferðisbrot og heimilisofbeldi.

Af þessu tilefni hafa þrettán kvenna- og jafnréttissamtök á Íslandi boðað til blaðamannafundar nú fyrir hádegi. Gerir kvennahreyfingin kröfur um um úrbætur í réttarkerfinu fyrir brotaþola kynbundins ofbeldis.

Í tilkynningu frá Stígamótum segir að tölur gefi til kynna að 70 til 85 prósent þeirra mála þar sem konur tilkynna ofbeldi til lögreglu séu felld niður á leið sinni í gegnum réttarkerfið áður en þau komast í dómsal.

„Með öðrum orðum þá fá konur sárasjaldan áheyrn dómara og uppskera lítið réttlæti af því að leita til réttarkerfisins með mál sín. Níu konur hafa ákveðið að láta ekki þar við sitja og hafa kært niðurstöðu íslenska ríkisins um að fella niður mál þeirra til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Við undirbúning kæranna til MDE komu í ljós fjölmargar og alvarlegar brotalamir í meðferð málanna sem varða t.d. rannsókn lögreglu, mat á sönnunargögnum og túlkun á vilja löggjafans. Verða þessar brotalamir kynntar ítarlega á fundinum í dag,“ segir í tilkynningu Stígamóta en auk þeirra taka Aflið, Druslugangan, Femínistafélag Háskóla Íslands, Flóra, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennahreyfing ÖBÍ, Kvennaráðgjöfin Kvenréttindafélag Íslands, Rótin, W.O.M.E.N. og UN Women þátt.

Fylgjast má með blaðamannafundinum í beinni útsendingu hér:

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem kvennahreyfingin gaf út fyrir helgi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×