Innlent

Vill að fólk borgi fyrir dvölina að fullu ef það getur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna. 
Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna.  Vísir

Forstjóri Grundarheimilanna segir íslenska ríkið ekki geta staðið undir rekstri hjúkrunarheimila um ókomna tíð. Taka eigi fyrirkomulag sem viðhaft er víða á Norðurlöndum til fyrirmyndar, þar sem greiðsluþátttaka sjúklinganna sjálfra er meiri en hér á landi.

Þetta kom fram í máli forstjórans er hann ræddi málefni hjúkrunarheimila í Víglínunni á Stöð 2 í dag.

„Ríkið kemur ekki til með að geta staðið undir þessu til eilífðar og við þurfum að fara þessa leið sem er farin víða á Norðurlöndum og í Þýskalandi. Þar einfaldlega borgar þú fyrir þína dvöl að fullu á meðan þú getur gert það,“ sagði Gísli Páll Pálsson.

„Á Íslandi í dag er verið að borga að hámarki fjögur hundruð og eitthvað þúsund en ef þú átt pening og eignir í Þýskalandi þá borgar þú bara þína 1,2 milljónir á mánuði, sem það kostar á Íslandi, þangað til þínar eignir eru búnar.“

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, taldi Gísla Pál vera að tala fyrir tvöföldu heilbrigðiskerfi en Gísli Páll tók fyrir það. Allir myndu borga. 

„Ég er ekki að tala um að þeir sem geti ekki borgað fái ekki inni. Ég er bara að segja að þeir sem eiga peninga, þeir eiga að borga. Þeir sem eiga 100 milljóna króna hús, og eru á hjúkrunarheimili í tvö ár. Þó þau borgi 25, 30 eða 40 milljónir. Auðvitað yrðu krakkarnir brjálaðir. Þess vegna þorir enginn stjórnmálamaður á Íslandi að nefna þetta. Ég hef sagt þetta við alla heilbrigðisráðherra síðustu tíu til fimmtán árin. En það þorir enginn að fara í þetta.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.