Innlent

Út­vista dóms­máli mennta­mála­ráð­herra gegn Haf­dísi

Eiður Þór Árnason skrifar
Lilja Alfreðsdóttir hefur ekki viljað tjá sig um málið frá því að dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Lilja Alfreðsdóttir hefur ekki viljað tjá sig um málið frá því að dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/vilhelm

Embætti ríkislögmanns útvistaði máli íslenska ríkisins og mennta- og menningarmálaráðherra gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur. Er málið því rekið af lögmanni utan stjórnsýslunnar.

RÚV greinir frá þessu og segir það mjög fátítt að ríkislögmaður útvisti málum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði á föstudag kröfu Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menntamálaráðherra, um ógildingu úrskurðar kærunefndar jafnréttismála vegna ráðningar ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytið árið 2019. 

Lilja hyggst áfrýja dómum til Landsréttar en hún hefur ekki viljað tjá sig um málið eftir að dómurinn féll á föstudag. Íslenska ríkið var jafnframt dæmt til þess að greiða málskostnað Hafdísar sem nemur 4,5 milljónum króna.

Hafdís sem sótti einnig um stöðu ráðuneytisstjóra kærði ráðningu Páls Magnússonar til kærunefndar jafnréttismála sem úrskurðaði síðasta sumar að Lilja hefði brotið jafnréttislög með ráðningunni. Í kjölfarið stefndi ráðherra og ríkið Hafdísi í júlí til að fá úrskurðinum hnekkt.

Embætti ríkislögmanns heyrir beint undir forsætisráðuneytið þar sem Hafdís er skrifstofustjóri en að sögn RÚV var það meðal annars tekið til greina þegar ákveðið var að útvista málinu.

Páll var skipaður í embætti ráðuneytisstjóra frá 1. desember 2019 en hann var lengi virkur í Framsóknarflokki Lilju og hefur meðal annars starfað sem aðstoðarmaður ráðherra og bæjarritari Kópavogs.


Tengdar fréttir

Segir mál Lilju vonda lögfræði og enn verri pólitík

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um að Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, hafi brotið jafnréttislög við skipan ráðuneytisstjóra var afdráttarlaus um að leikreglur hafi verið brotnar að mati þingmanns Viðreisnar. Í málinu sé vond lögfræði og ennþá verri pólitík.

Menntamálaráðherra tapaði í héraðsdómi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, um ógildingu úrskurðar kærunefndar jafnréttisnefndarmála vegna ráðningar ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.