Innlent

Starfsmaður Landspítala með Covid og deild lokað

Kristín Ólafsdóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Smit er komið upp á Landspítalanum.
Smit er komið upp á Landspítalanum. Vísir/vilhelm

Starfsmaður Landspítala greindist með kórónuveiruna í gær. Hópur starfsmanna og sjúklinga var sendur í sýnatöku vegna þessa. Deild þar sem smitið kom upp hefur verið lokað.

Þetta staðfestir Anna Sigrún Baldursdóttir aðstoðarmaður forstjóra Landspítala í samtali við Vísi. Hún segir smitrakningu standa yfir og búast megi við niðurstöðu úr sýnatöku síðdegis í dag.

„Það sem er mikilvægt í þessu er að veiran er úti í samfélaginu. Viðkomandi var ekki að koma frá útlöndum enda strangar reglur um það þegar fólk kemur að utan. Það er áhyggjuefni,“ segir Anna Sigrún.

Smitið kom upp á dagdeild en ekki legudeild, að sögn Önnu Sigrúnar. Þeir starfsmenn og sjúklingar sem útsettir voru fyrir smitinu fara í sóttkví.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir smitrakningu vera í fullum gangi. „Það er verið að skoða þetta og fara yfir stöðuna,“ segir Hjördís í samtali við Vísi. Smitrakning standi enn yfir og því sé að svo stöddu ekki hægt að veita nánari upplýsingar um hvert smitið kunni að teygja anga sína eða hvert megi rekja uppruna þess.

Ekki fást lengur upplýsingar um smittölur hjá almannavörnum um helgar. Á föstudag, þegar tölur voru síðast birtar, hafði enginn greinst með veiruna síðan 26. febrúar.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.