Innlent

„Er ég bara einstakt tilfelli eða er þetta eitthvað kerfislægt?“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hulda Hjálmarsdóttir.
Hulda Hjálmarsdóttir. Vísir/Arnar

Kona sem greindist með frumubreytingar við leghálsskimun í fyrra, en var ekki boðuð í endurkomu eins og átti að gera í febrúar óttast að fleiri konur hafi gleymst eins og hún.

Hulda Hjálmarsdóttir fór í reglubundna skimun fyrir leghálskrabbameini hjá Krabbameinsfélaginu í ágúst síðastiðnum og greindist með vægar frumubreytingar. Hún hefði réttilega átt að vera boðuð í endurkomu í febrúar en fékk ekki áminningu.

„Og fór þá að hugsa, ókei, hvernig er staðið að því að boða fólk í endurkomur? Er ég bara einstakt tilfelli eða er þetta eitthvað kerfislægt, að það séu fleiri konur sem falla á milli? Og það varð mér áhyggjuefni,“ segir Hulda, sem fyrst sagði frá reynslu sinni í Morgunblaðinu í morgun.

Önnur kona, áhrifavaldurinn Kara Kristel, greindi frá því á Instagram í vikunni að hún hefði greinst með frumubreytingar eftir skimun í byrjun september en ekki fengið áminningu. Kara segir í samtali við fréttastofu að margar konur, sem lent hafi í hinu sama, hafi leitað til hennar eftir að hún birti færsluna.

Skimun fyrir leghálskrabbameini var færð frá Krabba­meins­fé­lag­inu yfir til heilsu­gæsl­unn­ar um áramótin. Hulda leitaði svara vegna máls síns og kveðst hafa fengið þær upplýsingar að hún ætti að senda beiðni til samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana. 

Bæði heilsugæslan og samhæfingarmiðstöðin vísuðu á embætti landlæknis, sem sér um skimunarskrár, vegna málsins þegar fréttastofa leitaði skýringa. Fréttastofa hefur sent landlækni fyrirspurn. Hulda segir mikilvægt að fyrirkomulagið sé skýrt.

„Ég held við getum öll verið sammala um það, allir landsmenn að þetta er hlutur sem við viljum hafa í lagi og er lýðheilsumál sem varðar okkur öll.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×