Slysið átti sér stað á hraðbraut sem liggur um landbúnaðarhérað um 160 kílómetrum austur af San Diego, um átján kílómetrum norður af landamærunum að Mexíkó. Lögreglustjóri á svæðinu segir við AP-fréttastofuna að tólf manns hafi verið úrskurðaðir látnir á vettvangi og sá þrettándi á sjúkrahúsinu.
Upphaflega greindu talsmenn sjúkrahússins í El Centro þangað sem flestir þeirra slösuðu voru fluttir frá því að fimmtán væru látnir. AP-fréttastofan uppfærði frétt sína í kjölfarið og sagði þrettán látna.
Fjöldi annarra farþega í bílnum slasaðist í árekstrinum og var fluttur á sjúkrahús. Ekki liggur fyrir hvað olli slysinu en óvenjumargir farþegar voru í jeppanum. Jeppinn var af gerðinni Ford Expedition og tekur átta manns. AP segir að malarflutningabílnum hafi verið ekið inn í jeppann.
Landamæraverðir aðstoða nú lögreglu við rannsókn á slysinu. Ekki er vitað hvort að fólkið í jeppanum hafi verið með landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Marcario Mora, talsmaður Tolla- og landamæraeftirlits í Yuma og El Centro, segir að mögulega hafi verið um farandverkamenn að ræða.
Uppskerutímabil stendur nú yfir á káli og fleiri jurtum á svæðinu þar sem slysið varð. Bændur í sunnanverðri Kaliforníu reiða sig mjög á erlenda farandverkamenn.

Fréttin hefur verið uppfærð.