Riðan greindist í sýni úr kind frá bænum Vatnshóli í Húnaþingi en á bænum eru nú um 925 fjár. Bóndinn hafði samband við Matvælastofnun sem tók sýni úr kindinni og sendi á tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum þar sem riðuveiki var staðfest.
Búið er í Vatnsneshólfi. Þar hefur riðuveiki komið upp á einu búi á undanförnum 20 árum. Síðast greindist riða á bænum árið 1999.
Ekki er talið að þetta tilfelli tengist riðutilfellunum í Tröllaskagahólfi þar sem riða greindist á fimm bæjum fyrir áramót.
Héraðsdýralæknir vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga og úttekt á búinu til að meta umfang aðgerða við förgun fjár, þrif og sótthreinsun. „Því næst fer málið í hefðbundið ferli hvað varðar gerð samnings um niðurskurð,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.