Innlent

Riða komin upp í Húnaþingi vestra

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Riðan í Húnaþingi tengist ekki riðuveikinni sem kom upp í Skagafirði í vetur.
Riðan í Húnaþingi tengist ekki riðuveikinni sem kom upp í Skagafirði í vetur. Vísir/vilhelm

Riðuveiki hefur verið staðfest á búi í Húnaþingi vestra í Vatnsneshólfi. Síðast greindist riða í hólfinu árið 2015. Matvælastofnun vinnur nú að öflun upplýsinga og undirbúningi aðgerða, að því er fram kemur í tilkynningu frá stofnuninni.

Riðan greindist í sýni úr kind frá bænum Vatnshóli í Húnaþingi en á bænum eru nú um 925 fjár. Bóndinn hafði samband við Matvælastofnun sem tók sýni úr kindinni og sendi á tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum þar sem riðuveiki var staðfest.

Búið er í Vatnsneshólfi. Þar hefur riðuveiki komið upp á einu búi á undanförnum 20 árum. Síðast greindist riða á bænum árið 1999.

Ekki er talið að þetta tilfelli tengist riðutilfellunum í Tröllaskagahólfi þar sem riða greindist á fimm bæjum fyrir áramót.

Héraðsdýralæknir vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga og úttekt á búinu til að meta umfang aðgerða við förgun fjár, þrif og sótthreinsun. „Því næst fer málið í hefðbundið ferli hvað varðar gerð samnings um niðurskurð,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×