Innlent

Áhersla lögð á að koma réttum upplýsingum til skelkaðra íbúa af erlendum uppruna

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Fannar Jónasson segir mikilvægt að koma réttum upplýsingum til íbúa af erlendum uppruna. Þeir séu oft afar skelkaðir vegna jarðaskjálfta.
Fannar Jónasson segir mikilvægt að koma réttum upplýsingum til íbúa af erlendum uppruna. Þeir séu oft afar skelkaðir vegna jarðaskjálfta. Vísir/Egill

Bæjarstjórinn í Grindavík segir að mikil hræðsla hafi gripið um sig hjá fólki af erlendum uppruna í samfélaginu vegna jarðskjálftana undanfarið. Margir hafi litla reynslu af jarðskjálftum og eina þekkingin komi frá fréttamyndum af miklum hörmungum í kjölfar þeirra. Áhersla sé lögð á að koma réttum upplýsingum til hópsins. 

Stór hluti íbúa á Suðurnesjum er af erlendum uppruna en frá 15-20% íbúa þar eru í þeim hópi. 

Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík segir að frá því jarðhræingarnar hófust þar í fyrra hafi mikill ótti gripið um sig í hópnum og áhersla verið lögð á að koma réttum upplýsingum á framfæri.

„Við höfum fundið að það er mikil hræðsla hjá fólki af erlendum uppruna í samfélaginu.  Þetta er oft fólk sem þekkir lítið til jarðskjálfta og þekking þeirra byggist jafnvel á fréttamyndum af föllnum húsum eftir jarðskjálfta. Þeir óttast því helst að hús hrynji og það verði jafnvel mannskaðar.Við höfum reynt að koma réttum upplýsingum á framfæri við þessa hópa til að mynda á Facebook,“ segir Fannar.

Hann segir mikilvægt að koma upplýsingum hratt og vel á framfæri. 

„Við höfum reynt að koma réttum upplýsingum á framfæri og í einhverjum tilfellum hefur fólk orðið rólegra. En þetta er stöðug áskorun sem þarf að vanda sig við. Við ræddum á fjölskipuðum almannavarnarfundi í morgun að taka saman helstu upplýsingar um jarðskjálftana og láta svo þýða á pólsku og ensku og senda þetta á þá sem þurfa á að halda,“ segir Fannar.

Fannar segir að fólk þurfi að átta sig á að hús hér á landi séu byggð með jarðskjálfta í huga. 

„Það er mikilvægast að koma upplýsingum um bygginarlagið hjá okkur á framfæri. Til að mynda um byggingarreglugerð hér á landi og varúðarráðstafanir sem gerðar eru til að koma í veg fyrir að hús hryni. Fólk þarf að vita að húsakosturinn er öruggur,“ segir Fannar. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×