Innlent

Telur lík­legt að skjálfta­hrinan deyi út á næstu dögum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Skjálfti að stærð 3,9 varð rétt fyrir utan Grindavík í dag.
Skjálfti að stærð 3,9 varð rétt fyrir utan Grindavík í dag. Vísir/Vilhelm

Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir enn óljóst hvort dragi úr jarðskjálftum á Reykjanesskaga á næstu dögum eða hvort von sé á enn stærri skjálftum og jafnvel eldgosi. Hún telur þó líklegt að skjálftahrinan deyi út í næstu viku.

„Staðan er bara sú að við erum í miðri hrinu það hefur verið jarðskjálftavirkni á þremur stöðum í dag og hefur verið að færast aðeins í norðaustur, frá Fagradalsfjalli og nær Keili. Þar hafa mestu átökin verið,“ sagði Kristín í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það er greinilega mikil spennulosun í gangi þar og þetta hefur sést áður. Við höfum séð það síðustu öld að það hafa orðið miklar hrinur þar. Það voru skjálftar í nótt við Trölladyngju og svo um hádegisbil voru skjálftar mjög nálægt Grindavík sem fundust vel þar,“ segir Kristín.

Hún segir eðlilegt að fólki bregði þegar skjálftar eru komnir svo nálægt byggð, en upptök skjálftans nærri Grindavík í dag var aðeins um kílómetra frá byggð.

„En sem betur fer voru þessir skjálftar ekki stærri en 3,9. Við auðvitað vonum að þeir haldi sér fjarri byggð en það er erfitt að spá í framhaldið,“ segir Kristín.

Líklegt að hrinan deyi út á næstu dögum

Hún segir stöðuna þá sömu og síðustu daga. Enn er óljóst hvort dragi úr skjálftahrinunni, hvort eldgos sé í vændum eða hvort von sé á stærri skjálftum.

„Þetta er áfram bara svipuð staða, við erum áfram að fylgjast með þessari virkni og erum að gera ráð fyrir því að hún geti færst eitthvað til áfram og ennþá er þessi sviðsmynd inni að það geti komið stærri skjálftar,“ segir Kristín.

Hún telur þó líklegt að það sé ekki mikið eftir af skjálftahrinunni.

„Það er líklegt að þetta séu ekki margir dagar. Mér finnst líklegast að þetta deyi út í næstu viku,“ segir Kristín.

Hún segir þó mikilvægt að muna að á Reykjanesi sé skjálftavirkni mikil, enda flekaskil á skaganum.

„Jarðskjálftavirkni þarna hættir náttúrulega ekkert þar sem þarna eru flekaskil. Við sjáum það í gegn um söguna að það eru endurtekin átök á nokkurra ára fresti þannig að ég held að við verðum að vera undir það búin að þetta gerist aftur,“ segir Kristín.


Tengdar fréttir

Skjálfti að stærðinni 4,3 nú síðdegis

Snarpur skjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu rétt í þessu. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni var hann yfir 4,3 að stærð og upptökin einn kílómetra vestur af Keili.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.