Innlent

Segir ekkert ó­­eðli­­legt við sam­skipti sín og lög­­reglu­­stjóra

Vésteinn Örn Pétursson og Heimir Már Pétursson skrifa

Dómsmálaráðherra segir ekkert hafa verið óeðlilegt við símtöl hennar við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu eftir að lögreglan upplýsti að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra var meðal gesta í Ásmundarsal þar sem sóttvarnareglur voru brotnar.

Í reglulegri dagbókarfærslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að liðinni Þorláksmessu, sem send var fjölmiðlum, kom fram að Bjarni Benediktsson hefði verið meðal gesta í Ásmundarsal þar sem sóttvarnareglur um samkomutakmarkanir hafi verið brotnar. Eftir það átti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra símtöl við Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu um verklagsreglur lögreglunnar.

Var það eðlilegt að ráðherra hringi í lögreglustjóra um þetta mál?

„Ég á mikil samskipti við lögregluna. Samtalið snerist ekki um þetta mál, heldur verklagsreglur um dagbókarfærslur lögreglunnar, sem ég fékk miklar spurningar um, meðal annars frá fjölmiðlum. Það er nú ég sem þarf að svara fyrir lögregluna oft á tíðum og þekkja hennar mál. Ég á, sem betur fer, í góðum samskiptum við lögregluna,“ sagði Áslaug Arna.

En tilefnið var kannski vissulega þetta mál?

„Tilefnið var dagbókarfærslan sem vakti athygli. Fjölmiðlar fjölluðu um að hún hefði verið sérstök, og því vildi ég vita áður en ég tjáði mig um það hvernig verklagsreglur um dagbókarfærslur væru.“

Áslaug kveðst þá ekki sjá líkindi milli málsins og máls Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem sagði af sér í kjölfar Lekamálsins. Þar hafði hún meðal annars samskipti við lögreglustjóra vegna máls sem var til meðferðar hjá lögreglu.

„Ég hef engin afskipti af nokkrum málum sem eru á borðum lögreglunnar,“ segir Áslaug sem kveðst ekki hafa haft skoðun á dagbókarfærslunni sem slíkri. Hún hafi aðeins verið að óska eftir upplýsingum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.