Innlent

Hefur boðað Áslaugu á fund vegna samskipta hennar og lögreglustjóra

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Stefnt er að því að dómsmálaráðherra komi fyrir stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd Alþingis á mánudag.
Stefnt er að því að dómsmálaráðherra komi fyrir stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd Alþingis á mánudag. Vísir/Vilhelm

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, fór fram á það við Jón Þór Ólafsson, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra komi fyrir nefndina sem fyrst til.

Andrés Ingi vill að nefndin fái tækifæri til að spyrja Áslaugu út í samskipti hennar og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag vegna Ásmundarsalarmálsins á Þorláksmessukvöld. Hún verður spurð hvort samskipti þeirra stangist hugsanlega á við sjálfstæði og hlutlægni lögreglu við rannsókn mála.

Ríkisútvarpið greindi frá því á þriðjudag að Áslaug hefði talað við lögreglustjórann í tvígang á aðfangadag eftir að lögreglan greindi fjölmiðlum frá meintu sóttvarnarbroti í Ásmundarsal.

Jón Þór segir í samtali við fréttastofu að þegar honum hafi borist beiðnin frá Andrési þá hafi hann þá þegar haft samband við deildarstjóra nefndarsviðs og forstöðumann nefndarsviðs til að ganga úr skugga um að það væri samkvæmt lögsögu nefndarinnar og samkvæmt lögum um þingsköp að nefndarformaður boðaði ráðherra á fund.

Eftir að hafa fengið úr því skorið að það samræmdist tilgangi nefndarinnar boðaði Jón Þór Áslaugu fyrir nefndina. Hann sagðist stefna á Áslaug mæti á fund stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar strax á mánudag.


Tengdar fréttir

Hringdi í lögreglustjórann vegna Ásmundarsalar á aðfangadag

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræddi tvisvar við Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag eftir að lögregla tilkynnti fjölmiðlum um sóttvarnabrot í Ásmundarsal, hvar fjármálaráðherra var staddur. Ríkisútvarpið greinir frá þessu og hefur eftir Áslaugu að hún hafi ekki verið að skipta sér af rannsókn málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×