Innlent

Lög­reglu­að­gerð við MH vegna sprengju­hótunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Heimildir fréttastofu herma að skólanum hafi borist sprengjuhótun.
Heimildir fréttastofu herma að skólanum hafi borist sprengjuhótun. Vísir/Vilhelm

Sprengjuhótun barst á netfang Menntaskólans við Hamrahlíð í nótt. Skólahald fellur því niður framan af degi. Lögreglan telur sig vita hver stendur að baki hótuninni en sá er staddur erlendis og hefur áður haft í hótunum með þessum hætti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem barst fjölmiðlum klukkan 08:52 í morgun.

Í tilkynningunni segir að um leið og lögreglu var tilkynnt um málið hafi verið brugðist við og gripið til viðeigandi ráðstafana sem miðuðu að því að leita af sér allan grun.

Aðgerðum er nú lokið á vettvangi. Skólastjórnendur hafa verið upplýstir um það og taka ákvörðun um skólahald í dag að sögn lögreglu.

Ekkert verður kennt í MH fyrir hádegi í dag. Von er á tilkynningu frá lögreglu vegna málsins.Vísir/Vilhelm

Lögregla veitir ekki frekari upplýsingar um málið að svo stöddu en samkvæmt upplýsingum fréttastofu var sprengjuleitarsveit Landhelgisgæslunnar meðal annars kölluð út.

Í tölvupósti sem Steinn Jóhannsson rektor MH sendi nemendum og forráðamönnum í morgun sagði að kennsla myndi falla niður fram að hádegi í dag af óviðráðanlegum orsökum.

Fjöldi lögreglubíla var við skólann í morgun og meinuðu lögreglumenn öllum aðgang að öllum aðkeyrslum að skólalóðinni.

Þegar ljósmyndari Vísi kom á vettvang upp úr klukkan hálfníu voru allir lögreglubílar á bak og burt sem og sprengjuleitarbíll Gæslunnar. Aðgerðum var því þá að mestu leyti lokið á vettvangi.

Tilkynning lögreglu:

Sprengjuhótun barst á netfang Menntaskólans við Hamrahlíð í nótt og því fellur skólahald þar niður framan af degi.

Um leið og lögreglu var tilkynnt um málið brást hún þegar við og gripið var til viðeigandi ráðstafana, sem miðuðu að því að leita af sér allan grun.

Aðgerðum á vettvangi er lokið og hafa skólastjórnendur verið upplýstir um það, en þeir taka ákvörðun um skólahald í dag.

Lögreglan telur sig vita hver stendur að baki hótuninni, en sá er staddur erlendis og hefur áður haft í hótunum með þessum hætti.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Fréttin var uppfærð kl. 09:02.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.