Fótbolti

„Þessi samtök eru á ákveðnum krossgötum“

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Hlöðversson hefur lengi starfað fyrir Breiðablik og lék áður með liðinu upp alla flokka. Hér afhendir hann Elfari Frey Helgasyni blómvönd eftir að Elfar náði 250 leikja áfanga hjá Blikum.
Orri Hlöðversson hefur lengi starfað fyrir Breiðablik og lék áður með liðinu upp alla flokka. Hér afhendir hann Elfari Frey Helgasyni blómvönd eftir að Elfar náði 250 leikja áfanga hjá Blikum. mynd/blikar.is

„Samtökin eru ekki eitthvað útibú frá KSÍ,“ segir Orri Vignir Hlöðversson, nýr formaður Íslensks toppfótbolta. Orri var sjálfkjörinn í embættið í síðustu viku eftir að Geir Þorsteinsson dró framboð sitt til baka, ósáttur við að framboð Orra væri álitið lögmætt, en Orri kveðst alls ekki líta svo á að hann hefji sitt starf í mótbyr.

Orri er 56 ára gamall Kópavogsbúi og framkvæmdastjóri Frumherja. Hann tekur við sem formaður ÍTF, hagsmunasamtaka félaga í efstu deildum fótbolta á Íslandi, sem fulltrúi Breiðabliks. Þar er hann formaður knattspyrnudeildar eftir að hafa tengst félaginu nær alla sína ævi, fyrst sem fótboltastrákur sem spilaði með liðinu fram í meistaraflokk.

„Ég er búinn að starfa hjá Breiðabliki núna meira og minna í ein 10-12 ár, sem formaður aðalstjórnar og svo formaður knattspyrnudeildar síðustu ár. Maður hellti sér út í starfið í gegnum börnin, eins og margir, og ég vil bara leggja mitt lóð á vogarskálarnar – lít á þetta sem samfélagsverkefni númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Orri. 

Hann kveðst stoltur af sínu starfi hjá fjölmennustu knattspyrnudeild landsins sem telur um 1.500 iðkendur og hefur hreinlega framleitt atvinnumenn í knattspyrnu karla og kvenna.

Tvö stór mál sem að glímt er við

Nú er Orri tekinn við formennsku hjá ÍTF, samtökum sem fögnuðu tíu ára afmæli á dögunum og eiga að berjast fyrir hagsmunum félaganna í efstu tveimur deildum karla og kvenna á Íslandi. Sem formaður tekur hann einnig sæti í stjórn KSÍ.

„Þessi samtök eru á ákveðnum krossgötum. Þau eru að þroskast og slíta barnsskónum. Núna eru tvö stór mál sem að menn glíma aðallega við. Annars vegar sjónvarpsréttarmál og hins vegar keppnisfyrirkomulagið í Pepsi Max-deild karla, og vissulega tengjast þessi mál mjög,“ segir Orri.

ÍTF sér nú í fyrsta sinn um sölu á réttinum til að sýna leiki í íslenskum fótbolta og ljóst að um mikið hagsmunamál er að ræða. Á þingi KSÍ á laugardaginn verður svo tekin afstaða til þess hvernig keppnisfyrirkomulagið á að vera í efstu deild frá og með árinu 2022 en fyrir liggja fjórir kostir.

„Á þessum tímapunkti liggur ekki fyrir nein afstaða ÍTF til keppnisfyrirkomulagsins fyrir þingið. Við erum hins vegar mjög virkir þátttakendur í umræðunni og það sem menn eru sammála um er að reyna að fækka valkostum, og brúa bilið á milli valkosta. Það eru auðvitað skiptar skoðanir innan samtakanna, eins og gefur að skilja,“ segir Orri en ÍA, Fylkir og Fram lögðu öll fram tillögu að breytingum á Íslandsmótinu.

Bjartsýnn á að fá góðan samning fyrir félögin

Hvað sjónvarpsréttinn varðar er málið einfalt. Orri vill fá samninga sem skila mestum tekjum fyrir aðildarfélög ÍTF.

„Við erum mjög bjartsýn á að geta gert góðan samning fyrir félögin okkar,“ segir Orri.

„Við getum alveg talað hreina íslensku með það að auðvitað snýst þetta um að fá sem hæst verð fyrir okkar vöru. Það hangir vissulega á hinu málinu, hvernig keppnisfyrirkomulagið verður og þannig hvaða vöru við erum að selja. Við þurfum svolítið að vita það eftir þingið á laugardaginn, en við erum mjög bjartsýnir á að ná hagstæðum samningum í ljósi þess að áhuginn á íslenska boltanum hefur aukist síðustu ár alveg gríðarlega, bæði hér heima og í útlöndum. Það kveikir von um að þetta sé orðið verðmeira en í fortíðinni.“

ÍTF ber ábyrgð á því að gera sem hagstæðastan samning um réttinn til að sýna frá leikjum í efstu deildum karla og kvenna.vísir/vilhelm

Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, skrifaði pistil á Fótbolta.net í gær þar sem hann velti fyrir sér tilgangi ÍTF. Sagði hann að með því að opna dyr samtakanna fyrir úrvalsdeild kvenna og næstefstu deildum karla og kvenna, væru öll helstu félög landsins með aðild. Hvort betur væri þá ekki heima setið en af stað farið, því samtökin væru orðin að hálfgerðri deild innan KSÍ.

Samtökin „auðvitað“ sjálfstæð

Orri hafði ekki lesið pistilinn þegar Vísir náði tali af honum í gær en aðspurður hvort samtökin væru orðin of fjölmenn eða almenn, svaraði Orri:

„Samtökin eru auðvitað bara við, og eins og við kjósum að reka þau á hverjum tímapunkti. Það er ákveðin hugmyndafræði á bakvið þau sem lifir góðu og gildu lífi. Menn geta verið sammála eða ósammála um áherslur og leiðir sem við förum á hverjum tíma en það er eitthvað sem við tæklum innan okkar raða eins og reyndir og agaðir menn.“

Hann vill alls ekki meina að samtökin séu orðin að deild innan KSÍ:

„Þau eru með forskrift sem sjálfstæð, starfandi samtök sem eru í hagsmunabaráttu fyrir efstudeildarfélög karla og kvenna á Íslandi. Þau eru auðvitað sjálfstætt batterí, þó þau séu mjög háð KSÍ og tengd KSÍ. Þau eru ekki eitthvað útibú frá KSÍ, og menn þurfa ekki að fletta lengi í samþykktum og starfi samtakanna til að sjá að þau eru sjálfstæð, það er alveg klárt.“

Þjóna þessum formönnum eins vel og öðrum

Eins og Vísir fjallaði um í síðustu viku ríkti ekki eining um það á aðalfundi ÍTF, að framboð Orra teldist lögmætt. Deilt var um hvort hann gæti boðið sig fram á meðan að fulltrúi frá Breiðabliki væri í stjórn, jafnvel þó að það væri með þeim forsendum að sá fulltrúi færi úr stjórn. Kosið var um lögmæti framboðsins og töldu átta félög það ólögmætt en 16 að það væri lögmætt.

Geir Þorsteinsson dró framboð sitt til baka eftir að ljóst varð að fundurinn teldi framboð Orra lögmætt. Kvaðst hann ekki ætla að taka þátt í „að samþykkja þessa lögleysu“. Úr því að Geir hætti við framboð var Orri sjálfkjörinn en finnst Orra að hann taki við formennsku í mótbyr?

„Ég lít alls ekki á þetta þannig. Menn voru ekki alveg sammála í aðdraganda þessa kjörs og það hafa allir rétt á sinni skoðun. Svo er þetta bara lýðræðisleg kosning þar sem að ágætur meirihluti ákveður að framboðið sé löglegt. Við það kýs mótframbjóðandi minn að draga framboð sitt til baka.

Þetta er bara niðurstaða og maður er orðinn það reyndur bæði í viðskiptum og félagsstarfi að vita að stundum kemur upp staða þar sem menn eru ekki sammála. Grundvallarreglan í því er að lúta niðurstöðunni og vinna saman. Hvað mig varðar þá mun ég þjóna þessum einstaklingum og formönnum eins vel og öðrum.“


Tengdar fréttir

Lögmæti framboðs Orra dregið í efa

Samkvæmt minnisblaði lögfræðings er framboð Orra Hlöðverssonar til formanns Íslensks toppfótbolta ólöglegt. Miðað við það virðist formannsstóllinn blasa við eina mótframbjóðanda Orra, Geir Þorsteinssyni, en ekki eru öll kurl komin til grafar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×