Erlent

NASA birtir myndband af lendingu Preseverance á Mars

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Vélmennið lenti á Mars fimmtudaginn 18. febrúar 2021. 
Vélmennið lenti á Mars fimmtudaginn 18. febrúar 2021.  Getty/NASA

NASA birti í dag myndband af sögulegri lendingu vélmennisins Preseverance á Mars í síðustu viku. Myndbandið sýnir síðustu mínúturnar af, að margra mati spennuþrungnum, aðdragandanum að lendingunni og af lendingunni sjálfri þegar hjól vélmennisins, eða geimjeppans, snertu loks yfirborð plánetunnar.

Vélmennið lenti á Mars eftir rúmlega hálfs árs ferðalag á fimmtudaginn en það mun safna upplýsingum í því skyni að reyna að komast að því hvort líf hafi einhvern tímann verið á plánetunni.

Sjö myndavélar voru festar á vélmennið sem sérstaklega voru hugsaðar til að mynda lendinguna. Myndirnar eru mikilvæg heimild og rannsóknargagn fyrir vísindamenn sem vinna að því að gera tæknina enn betri fyrir framtíðar leiðangra á Mars. Myndbandið má sjá hér að neðan en mikil fagnaðarlæti brutust út meðal starfsfólks NASA sem vann að verkefninu þegar lendingin heppnaðist.

„Þetta er í fyrsta sinn sem við höfum raunverulega getað fangað viðburð sem þennan, lendingu geimfarartækis á Mars,“ sagði Mike Watkins, forstjóri Jet Propulsion-rannsóknarstofnunarinnar í Kaliforníu þar sem verkefni NASA sem tengjast Mars fara fram, í samtali við blaðamenn.

„Við getum lært eitthvað með því að skoða hvernig bíllinn virkaði með hjálp myndbandanna. En mikilvægur þáttur í þessu er að taka ykkur með okkur í ferðalagið,“ sagði Watkins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×