Erlent

Höfða mál gegn orku­fyrir­tækjum eftir að ellefu ára sonur þeirra lést

Sylvía Hall skrifar
Cristian Pineda var ellefu ára gamall þegar hann lést, en fjölskyldan hafði flutt til Texas frá Hondúras fyrir tveimur árum síðan.
Cristian Pineda var ellefu ára gamall þegar hann lést, en fjölskyldan hafði flutt til Texas frá Hondúras fyrir tveimur árum síðan. Gofundme

Fjölskylda hins ellefu ára gamla Cristian Pineda hefur höfðað skaðabótamál gegn orkufyrirtækjum í Texas eftir að sonur þeirra lést í vetrarstormunum sem hafa gengið yfir suðurríki Bandaríkjanna. Telja þau son sinn hafa dáið úr lungnabólgu, en niðurstöður krufningar liggja ekki fyrir.

Kuldakastið hefur leitt til minnst sjötíu dauðsfalla í Texas og nærliggjandi ríkjum og voru milljónir án rafmagns og vatns þegar kuldinn var hvað mestur, en yfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir það hversu laskað kerfið reyndist vera.

Pineda bjó ásamt fjölskyldu sinni í hjólhýsi, en hann fannst látinn þar í síðustu viku. Móðir hans kom að honum en hún segir ekkert hafa amað að þann daginn, hann hafi verið hress og glaður áður en hún kom að honum látnum. Fjölskyldan hafi þó verið án hita og rafmagns í tvo daga og fór kuldinn mest niður í tólf gráðu frost á þeim tíma.

Fjölskyldan krefst 100 milljóna Bandaríkjadala í skaðabætur frá orkufyrirtækjunum. Telur hún fyrirtækin hafa sýnt af sér vanrækslu með því að setja gróða framar lífi og heilsu fólks í ríkinu.

Margir íbúar ríkisins standa nú frammi fyrir því að þurfa að greiða himinháa rafmagnsreikninga. Einhverjir íbúar hafa fengið reikninga fyrir allt að fimm þúsund dali, sem samsvarar tæpum 650 þúsund krónum, og er það fyrir eina viku.

Lítið um er um lög og reglur þegar kemur að orkumarkaði Texas og bjóða orkusölur neytendum upp á að borga markaðsverð fyrir rafmagn, sem getur reynst fólki ódýrara þegar lítið álag er á kerfi ríkisins. Níu þúsund dalir var hámarksverð sem lög og reglur Texas leyfa og hélst verðið þar stóran hluta síðustu viku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×